Nissan afhenti Harrods 100 rafknúna sendibíla

Nissan afhenti bresku verslunarkeðjunni Harrods í síðustu viku eitt hundrað rafknúna sendibíla af gerðinni Nissan e-NV200. Bílarnir verða notaðir til að dreifa vörum í verslanir keðjunnar á Lundúnarsvæðinu og við táknræna athöfn voru bílarnir afhentir við verslun Harrods við Knightsbridge.

Alls hefur Nissan afhent fyrirtækjum og einyrkjum um 27 þúsund rafknúna atvinnubíla í Evrópu og sýna útreikningar að kostnaður við hvern ekinn kílómetra er aðeins um 0,03 pund eða rúmar 4 krónur íslenskar.

Sendibílarnir Nissan e-NV200 voru aðlagaðir þörfum og ímynd Harrods, m.a. með sérsniðinni innréttingu í vörurýminu auk þess sem bílarnir voru afhentir í hinum vel þekkta græna einkennislit verslunarkeðjunnar.

Harrods gerir ráð fyrir að hver bíll fari í um 50 sendiferðir í hverri viku sem spanni alls rúmlega 240 km að meðaltali. Aðeins er gert ráð fyrir að hlaða bílana vikulega.

Hjá Harrods gjörþekkir starfsfólkið langa hefð verslunarkeðjunnar af notkun rafmagnsbíla því 1919 fengu verslanir Harrods bíla frá American Walker í Chicago sem smíðaðir voru á árunum 1907 til 1942. Seinna lét verslunarkeðjan smíða fyrir sig 60 sérhannaða rafknúna sendibíla og enn síðar tók verslunin bensínbíla í þjónustu sína sem þá voru mjög vinsælir.

Nú hefur Nissan gert verslanakeðjunni kleift að snúa á ný til uppruna síns á sviði vörudreifingar auk þess sem kaupin á rafmagnsbílunum frá Nissan eru hluti stefnu verslunarinnar á umhverfissviði.

Það fór vel á því að veita nýju bílunum móttöku núna, eitt hundrað árum eftir að framleiðslan á rafmagnsbílum American Walker hófst, en Harrods var eitt fyrsta fyrirtæki Bretlands sem tók í notkun rafmagnsbíla.