Nissan BladeGlider

Nissan mun sýna hugmyndabílinn BladeGlider á bílasýningunni í Tokyo sem framundan er. Hugmyndin að sköpulagi farartækisins er fengið frá DeltaWing kappakstursbílnum sem fyrir ekki löngu atti kappi við ofurbíla á Le Mans brautinni. DeltaWing bíllinn var knúinn lítilli bensínvél en umræddur Nisssan BladiGlider er hins vegar knúinn tveimur rafmótorum í sínu hvoru afturhjólinu.

http://www.fib.is/myndir/Nissan-BladeGl-cockpit.jpg

Í laginu er BladeGlider ekki ólíkur orrustuþotu og loftmótstaða hans er mjög lítil. Grunnþáttur lögunar hans er þríhyrningur (Delta) og er bíllinn því mun mjórri að framan en aftan. Ökumaðurinn situr fremst í bílnum en tvö farþegasæti eru til hliðar og aftan við ökumannssætið. Rafhlöðurnar eru sagðar þær sömu að mestu og eru í rafbílnum Nissan Leaf en þar sem BladeGlider bíllinn sjálfur er bæði minni og léttari og með mjög lága loftmótstöðu má reikna með að drægi hans verði umtalsvert meira á hleðslunni en hjá Nissan Leaf, sérstaklega ef hratt er ekið.

Sá sem hannaði BladeGlider heitir Ben Bowlby. Hann hannaði einnig DeltaWing bílinn, en hugmyndina að útliti beggja sótti hann í útlit F14 orrustuþotunnar og annarra hraðfleygra hátækniflugvéla.

Tveir rafmótorar eru innbyggðir inn í sitt hvort afturhjólið. Með því móti sparast mikið rými í bílnum. Auk þess skapar þetta fyrirkomulag möguleika til að miðla aflinu nákvæmlega til mótoranna eftir þörfum, t.d. í beygjum til að auka stöðugleikann. Ókostur er hins vegar hve hjólið verður þungt. Það veldur nefnilega tregðu í fjöðruninni og bíllinn verður hastari.

En rafmótorar í hjólum eru sannarlega ekkert nýtt, því að fyrir meira en öld, hannaði Ferdinant Porsche rafbíl sem þannig var búinn. Þá hefur Michelin hjólbarðaframleiðandinn og reyndar fleiri aðilar gert tilraunir með slík hjól. Það er því fátt nýtt undir sólinni í þessum efnum.

En loks er það spurningin hvort þessi BladeGlider bíll verði nokkru sinni að veruleika? Ef marka má fregnir sem Nissan hefur sent frá sér um farartækið þá er það vel líklegt og það jafnvel innan fárra ára.