Nissan eflir innviði fyrir rafbíla

Erna Gísladóttir forstjóri BL, Bjarni Bjarnason
forstjóri OR og Frederic Subra frá Nissan.
Mynd: Anton Brink

 

 

Um hádegisbilið í dag, föstudag, undirrituðu Þau Erna Gísladóttir forstjóri BL fyrir hönd bifreiðaframleiðandans Nissan og Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur samning um að efla innviði fyrir rafbíla umtalsvert. Settar verða upp 10 hraðhleðslustöðvar á og utan höfuðborgarsvæðisins. Nissan leggur stöðvarnar fram og Orkuveitan sér um að tengja þær við rafstraum.

Hraðhleðslustöðvarnar verða staðsettar þannig að þeir sem aka rafbílum geti verið öruggir um að komast um lengri veg en einungis um sitt næsta nágrenni ef svo má segja. Drægi rafbíla fer stöðugt vaxandi og er nú algengt að það sé frá þetta 100 upp í 300 kílómetra. Því getur það orðið nokkuð naumt í sumum tilfellum hvort rafbíll nær að komast t.d. austur að Flúðum eða í Borgarnes og aftur til baka, þegar engin er hleðslustöðin á leiðinni.

Hraðhleðslustöðvunum 10 frá Nissan er einmitt ætlað að vinna bug á þessu og um leið að draga úr „drægisótta“ þeirra sem aka rafbílum. Þegar stöðvarnar verða komnar upp viti rafbílaökumenn það að á höfuðborgarsvæðinu og í allt að 100 km fjarlægð frá því séu hraðhleðslustöðvar sem aðeins eru hálftíma eða minna að hlaða upp tóma geyma rafbílsins upp í 80 prósent hleðslu. Því geti þeir ósmeykir ekið upp í sumarbústaðinn sinn fyrir austan fjall eða í Borgarfirðinum svo dæmi sé nefnt, eða rekið önnur erindi sín án átta við það að stranda straumlausir einhversstaðar og einhversstaðar.

Svo virðist sem rafbílar séu loks að ná fótfestu á Íslandi, þessu mikla rafmagnslandi. Nýlega afhenti Hekla hf  12 rafbíla sem reyndar allir fóru í hendur fyrirtækja og stofnana. Þá hefur BL selt tug Nissan Leaf rafbíla, alla til einstaklinga og fjölskyldna og 15 til viðbótar eru á leiðinni til landsins. Loks eru allmargir Tesla S lúxus-rafbílar ýmist komnir eða á leið til landsins og flestir þeirra munu vera seldir þegar eða pantaðir. Ljóst má vera að hinn fyrirhugaði tugur hraðhleðslustöðva frá Nissan mun stórlega bæta notagildi rafbílanna