Nissan fær hressilega á baukinn frá flúna forstjóranum; Carlos Ghosn

Carlos Ghosn. Myndin er tekin þegar hann kynnti Nissan Leaf, fyrsta fjöldaframleidda rafbílinn, í No…
Carlos Ghosn. Myndin er tekin þegar hann kynnti Nissan Leaf, fyrsta fjöldaframleidda rafbílinn, í Noregi þann 8. apríl 2013.

Þrjú ár eru nú liðin síðan Carlos Ghosn, þáverandi forstjóri Renault-Nissan-Mitsubishi bílasamsteypunnar var handtekinn í Japan, sakaður um að hafa dregið sér risafjárhæðir. En rétt áður en réttarhöld yfir honum áttu að hefjast og Ghosn gekk laus gegn tryggingu, tókst honum að flýja og komast undan réttarhöldunum.

Bandarískir öryggisverðir, feðgar, sem hjálpuðu honum að flýja Japan, földu hann ofan í stórri kistu fyrir hljóðkerfi og smygluðu honum um borð í leiguþotu á flugvelli við Tokyoborg sem svo flaug með hann til Tyrklands. Þar beið önnur flugvél sem flaug honum áfram þaðan til Beirut í Líbanon.

Carlos Ghosn, sem er líbansk-brasilískur að uppruna, tók við sem forstjóri Renault í Frakklandi 1996 sem þá var við það að fara á hausinn. Hann átti stóran þátt í að rétta fyrirtækið af og sameina svo Renault og Nissan og síðar Mitsubishi í samsteypu sem varð við það einn stærsti bílaframleiðandi heims. Inn í þessa samsteypu bættust svo síðar ,,austantjaldsbílaframleiðendur” eins og AvtoVaz (Lada) í Rússlandi og Dacia í Rúmeníu o.fl. Auk þess að vera forstjóri Renault hefur Ghosn þannig verið bæði forstjóri og starfandi stjórnarformaður meira og minna samtímis eða sitt í hverju lagi yfir Renault, Nissan, Lada og Mitsubishi.

Carlos Ghosn hefur frá því eftir flóttann mikla frá Japan verið á hálfgerðum hrakningi og flótta, aðallega í Beirut og í Brasilíu. Hann hefur alltaf þverneitað ásökunum um fjárdrátt. Málið snúist um öfund og rógburð óvildarmanna úr hópi gamalla samstarfsmanna hjá Renault en þó aðallega Nissan. Undirróðursmennirnir þar hafi verið á móti því að Nissan yrði hluti af stærri samsteypu heldur viljað að fyrirtækið hefði fulla sjálfstjórn enda þótt það væri nánast á hausnum. Ásakanirnar væru undan þessara manna rifjum runnar og þeir hefðu áróðurslega náð undirtökunum í herförinni gegn sér.

Carlos Ghosn freistar þess nú að ná undirtökunum gegn óvinum sínu. Hann hefur nýlega gefið út bók, einskonar varnarrit, sem heitir Broken Alliances sem útleggja mætti sem rofin bandalög. Þar fullyrðir hann að þeir sömu menn sem lögðust gegn því að sameina Nissan og Renault og fengið sitt fram, séu nú þegar búnir að sanna getuleysi sitt með því að stjórna fyrirtækinu inn í blindgötu. Um þetta segir hann orðrétt í viðtali í viðskipaþættinum Fox Business á Fox sjónvarpsstöðinni (í þýð. Blm): -Eftir 19 ára vinnu mína þá er Nissan komið á sömu stöðu og það var árið 1999 – óspennandi miðlungs framleiðandi sem streitist við að skapa sér stöðu innan bílaiðnaðarins.-