Nissan í stórræðum í Mexíkó

Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að Nissan Motor Co ætli að fjárfesta tvo milljarða dollara í nýrri bílaverksmiðju í Mexíkó, sinni þriðju þar í landi.

Afköst nýju verksmiðjunnar verða 600 þúsund bílar á ári sem þýða mun rúmlega tvöföldun á framleiðslu Nissan í landinu.

Nýja verksmiðjan verður reist inni í miðju landi í héraðinu Aguascalientes. Þegar hún kemst í gagnið og í full afköst mun það þýða að 1,3 milljónir nýrra bíla verða til á hverju ári fyrir bílamarkaðinn í Suður- og Norður Ameríku og í ríkjum Karabíska hafsins. Ætliunin er að starfsemi hefjist í nýju verksmiðjunni í árslok 2013. Farið verður rólega af stað og framleiðslan aukin smám saman.

Þrjú samsetningarfæribönd verða í verksmiðjunni sem hvert um sig geta afkastað 200 þúsund fullbyggðum bílum á ári. Á tveimur þeirra verða eingöngu skrúfaðir saman  smábílar og millistærðarbílar. Þriðja færibandið verður notað til framleiðslu á bílum í samvinnu við Daimler.