Nissan innkallar 51.000 Qashqai, Qashqai+2 og NV200

Nissan innkallar nú 51.000 bíla vegna lauss stýrishjóls. Lang flestir bílanna, eða 48 þúsund, eru Nissan Qashqai og Qashqai+2 af árgerð 2012. Afgangurinn, 3.000  bílar, eru síðan af gerðinni NV 200, árgerð 2012. Í frétt frá Nissan segir að líklega þurfi að skipta um stýrishjól í um 600 umræddra bíla.

Um sjö þúsund þessara bíla eru skráðir í Bretlandi en afgangurinn var seldur til Evrópulanda, Afríku, Asíu, S. Ameríku, Mið-Austurlanda, Eyjaálfu og ríkja í Karíbahafi.  Allir voru bílarnir byggðir í verksmiðju Nissan í Sunderland í Bretlandi á tímabilinu febrúar-maí á þessu ári.

Upplýsingafulltrúi Nissan segir við BBC í Bretlandi að þaulkannað verði nú hvenær stýrishjólin í bílana voru steypt og skipt verði um gölluð stýrishjól, eigendum bílanna að kostnaðarlausu. Jafnframt verði umboðsaðilum Nissan boðið að bregðast skjótt við, hver á sínu markaðssvæði.

Upphafið að þessari innköllun er kvörtun frá bíleiganda í Finnlandi út af lausu stýrishjóli í bíl hans.