Nissan Juke

http://www.fib.is/myndir/Nissanjuke-innr.jpg
Nissan Juke að innan.

Bílaframleiðendur kynna sem óðast þessa dagana þær nýjungar sem frumsýndar verða á Genfarsýningunni sem verður 4-14 mars. Við höfum áður greint frá nokkrum þeirra nýjunga sem frumsýndar verða og tilbúnar eru í fjöldaframleiðslu. Og hér kemur enn ein nýjungin. Hún er lítill jepplingur frá Nissan, eins konar smækkuð útgáfa af Qashqai og heitir Juke. Juke er byggður á sömu botnplötu og Renault Clio og verður fáanlegur bæði framdrifinn og fjórhjóladrifinn. Stærsta vélin verður 190 hestafla. Þetta mun vera einn minnsti jepplingurinn í boði yfirleitt.

Frumgerð Nissan Juke var reyndar sýnd á Genfarsýningunni í fyrra undir nafninu Qazana og vakti mikla athygli fyrir kraftalegt byggingarlag á litlum bíl. Þetta kraftalega lag er enn til staðar að mestu leyti. Útlitið er dálítið sérstætt og eru aðalljósin staðsett óvenju ofarlega en hringlaga ljós (trúlega þokuljós) sitja lágt og út á sínum hvorum enda framstuðarans sem er einskonar framhald mjög „bólginna“ frambrettanna.

Óþarfi er kannski að taka fram að jepplingur eru eins konar millistig eða blendingur jeppa, fórhjóladrifins torfærubíls og fólksbíls og kallast því Crossower á útlensku. Þeir hafa hingað til lítt ekki fyrirfundist í smábílaflokknum (B-flokknum). Undan þessu hafa Evrópumenn kvartað og undrast að ekki séu til mikið fleiri smájepplingar í álfunni aðrir en hinn fjórhjóladrifni Fiat Panda.  Nissan Juke ætti því að geta komið sterkur inn á markað sem vænlegur valkostur við alla litlu hlaðbakana sem í boði eru í B-stærðarflokknum.

Nissan Juke er einskonar litlibróðir Nissan Qashqai sem fékk góðar móttökur Evrópumarkaðarsins, svo góðar raunar að Nissan verksmiðjan í Bretlandi sem skrúfar hann saman hefur verið drifin áfram á fullum afköstum. Þrjú vaktagengi hafa undanfarið unnið við samsetninguna í stað tveggja eins og ráð hafði verið fyrir gert í upphafi. Simon Thomas sölustjóri Nissan í Evrópu væntir þess að ná til nýrrar kynslóðar bílakaupenda með þessum nýja jepplingi og að hann verði ekki síður góður sölubíll en Qashqai hefur verið. Juke verður framleiddur í verksmiðju Nissan í Sunderland, þeirri sömu og Qashqai er framleiddur í. Hann mun koma á markað með haustinu.

Juke er sem fyrr er sagt byggður á sömu grunnplötu og Renault Clio. Hann er 413 sm langur, 176 að breidd og 157 sm hár. Lengd milli hjóla er 253 sentimetrar þannig að bíllinn verður minnsti jepplingurinn á markaðnum. Sú gerð sem sýnd verður í Genf er með 190 ha. túrbínu- bensínvél. Aðrir vélakostir verða 117 ha. bensínvél og 110 ha dísilvél. Gírkassar í boði verða fimm eða sex gíra handskiptingar og stiglaus CVT sjálfskipting (ekki með fjórhjóladrifnu gerðunum).

Hvað Nissan Juke á eftir að kosta hefur ekki verið gefið upp ennþá.