Nissan Leaf rafbílar uppseldir í ár

Carlos Ghosn forstjóri Renault/Nissan sagði í vikunni við dagblaðið York Times að nú þegar lægju fyrir hjá fyrirtækinu 19 þúsund staðfestar pantanir á rafbílnum Nissan Leaf í Bandaríkjunum og Japan. Fjöldaframleiðsla er hafin en byrjað verður að afhenda kaupendum bílana í lok ársins.

Enn eru rúmlega sex mánuðir þar til byrjað verður að afgreiða rafbílinn Nissan Leaf til kaupenda í söluumboðum Renault/Nissan. 19 þúsund pantanir þýða það að í raun er bíllinn nú þegar uppseldur á þessu ári og ekki hægt að taka móti fleiri pöntunum á bílum til afhendingar fyrir áramótin næstu, að því er Carlos Ghosn upplýsti á fundi í Detroit sl. þriðjudag. „Pantanirnar eru það margar að við getum ekki annað en verið mjög ánægð með þetta verkefni sem við höfum tekist á hendur. Því dýpra sem við sökkvum okkur ofan í það, þeim mun ánægðari erum við,“ sagði forstjórinn. Hann greindi jafnframt frá því að reist yrði verksmiðja í Smyrna í Tennessee þar sem framleiddar verða rafhlöður fyrir Nissan Leaf og hugsanlega fleiri gerðir rafbíla. Markmiðið væri að selja 500 þúsund rafbíla á ári  í öllum heiminum frá og með árinu 2013. Fyrstu Leaf bílarnir verða framleiddir í Japan en ný samsetningarverksmiðja á að taka til starfa í Tennessee á næsta ári og mun hún framleiða Leaf-bíla fyrir Ameríkumarkaðinn.

New York Times segir að áhugi Ghosn fyrir rafbílum sé mjög skýr og greinilegur og hann láti sér í léttu rúmi liggja þótt bæði ýmsar nýlegar rannsóknir, sem og yfirlýsingar annarrar bílaforstjóra, m.a. Honda, segi að hreinir rafbílar séu of skammdrægir og því ekki raunhæfur valkostur við hefðbundna bíla og rafbíla með innbyggðri rafstöð. General Motors áætlar að hefja sölu á Chevrolet Volt rafbílnum síðar á þessu ári, en Chevrolet Volt er með innbyggðri rafstöð. Geymarnir í Volt-bílnum duga til um 70 km aksturs en þá tekur rafstöðin við. Aðspurður um þessa samkeppni og hvort sett yrði rafstöð í Leaf-bílana til að mæta henni og forða því jafnframt að ökumenn strönduðu einhversstaðar á víðavangi þar sem engin væri  innstungan til að endurhlaða geymana, kvað Ghosn nei við. Hann sagði að geymarnir í Leaf væru það stórir að rafmagnið í þeim dygði til 160 km aksturs. „Við ætluðum okkur að framleiða útblástursfrían bíl og ég vil ekki sjá neitt bensín í honum, punktum og basta,“ sagði Carlos Ghosn.

Af Nissans hálfu er komið byrjunarverð á Nissan Leaf í Bandaríkjunum. Það er 32.780 dollarar. Frá þeirri upphæð dragast svo 7.500 dollara skráningargjöld sem endurgreidd eru af umhverfismildum bílum. General Motors hefur enn ekki gefið upp hvert verðið verður á Chevrolet Volt en flestir búast við að það verði 40.000 dollarar sem 7.500 dollara skráningargjaldið síðan dregst frá.

Ýmsir fleiri rafbílar eru væntanlegir á markað í Bandaríkjunum á allra næstu árum þannig að Nissan Leaf verður ekki einn um hituna. Meðal væntanlegra rafbíla eru Ford Focus, Tesla S (í samvinnu við Toyota) og Fisker Karma sem settur er saman hjá Valmet í Finnlandi.

Carlos Ghosn sagði að kaupendur Nissan Leaf  væru og yrðu fyrst og fremst fólk á þéttbýlum svæðum þar sem allsstaðar er aðgangur að rafmangsinnstungum. Þá væru yfirvöld ýmissa borga, ekki síst í Kaliforníu byrjuð að setja upp hleðslustöðvar. „Auðvitað viljum við ekki setja neytendur í þá stöðu að kaupa bíl en kunna síðan hvorki að hlaða hann né þjónusta og halda honum við. Við munum auðvitað sjá til þess að á þeim svæðum sem við setjum bílinn á markað, séu til staðar innviðir sem duga til fólk geti ekið rólegt og áhyggjulaust.“