Nissan Qashqai annar mest seldi bíllinn í Evrópu í september

Norski bílavefurinn BilNorge greinir frá því að sala á nýjum bifreiðum í Evrópu hafa tekið kipp í september. Svolítill afturkippur var á markaðnum þar á undan en svo virðist sem markaðurinn sé að rétta úr kútnum eins og kemur fram í fréttum.

Það er enga kreppu að sjá þessum markaði eins og fréttamiðlar komast að orði. Sérstaklega er tekið eftir því hvað sala á nýjum bílum hefur aukist í Austur-Evrópu.

Það sem vakti hvað mesta athygli við sölu á nýjum bílum í Evrópu í september var að Nissa Qashqai skaust upp í annað sætið yfir mest seldu bíla en svo ofarlega hefur þessi bílategund aldrei verið áður. Sem fyrr er VW Golf langmest seldi bíllinn í Evrópu.

Greiningarfyrirtæki sjá engin önnur merki um en að bílasala verði í jafnvægi á næstu mánuðum og sum staðar muni hún aukast.

Í nýliðnum september seldust 51.500 VW Golf bílar í Evrópu sem er aukning um tæp 11% frá fyrra mánuði. Töluvert munar á bílum sem koma í næstu sætum. Nissan Qashqai er í öðru sæti en af þessari tegund seldust 28.987 bílar í Evrópu í september sem er aukning um tæp 14% frá mánuðinum á undan. Renault Clio er í þriðja sæti með 26.902 selda bíla.

Í næstum sætum koma tegundir á borð við Opel Corsa, VW Tiguan, Ford Focus, VW Polo, Skoda Octavia, Peugeot 208 og Toyota Yaris með yfir 20 þúsund selda bíla.

Þess má geta að salan á Ford Fiesta í september einum í Evrópu dróst saman um tæp 45%. Þar á salan í Bretlandi stærstan þátt en breskur almenningur hefur haldið að sér höndum sökum ótryggs efnahagsástands í landinu.