Nissan reynsluekur „áfengisrafbílnum“

Hjá Nissan stendur nú yfir reynsluakstur á sérstæðum rafbíl sem við sögðum frá í þessari frétt. Í bílnum er efnarafall sem dregur vetni úr venjulegu áfengi (etanóli), breytir vetninu svo í rafstraum sem knýr bílinn. Prófanirnar fara fram í Brasilíu í almennri umferð á vegum og götum.

Bíllinn er hreinn rafbíll fyrir utan efnarafalinn sem kallast e-Bio Fuel-Cell. Í honum er 24 kílóWatta rafhlöðusamstæða og 30 lítra áfengistankurtankur (eldsneytisgeymir). Úr honum er áfenginu dælt í efnarafalinn sem skilur vetnið úr spíranum og breytir því í rafstraum sem fer inn á rafgeymasamstæðuna og þaðan til rafmótoranna sem knýja bílinn. Tankfyllin af spíranum er sögð nægja til a.m.k. 600 kílómetra aksturs. Tilgangur reynsluakstursins er að þrautreyna e-Bio Fuel-Cell efnarafalinn og þróa áður en hann fer í fjöldaframleiðslu, gera hann enn umhverfisvænni og öruggari í rekstri.

Haft er eftir Carlos Ghosn stjórnarformanni og forstjóra Nissan-Renault í frétt frá Nissan, að miklar vonir séu bundnar við e-efnarafalinn. Hann muni stuðla að  mengunarléttum samgöngum og opni á sjálfbæra og staðbundna eldsneytisframleiðslu. Síðast en ekki síst kalli búnaðurinn ekki á neinar meiriháttar breytingar á innviðum eins og eldsneytisdreifingu og umferðarmannvirkjum.