Nokkrir af þyrstustu bílum olíukreppunnar á áttunda áratuginum

Þýska bílatímaritið AutoBild hefur tekið saman yfirlit yfir eyðslu bíla um það leyti sem fyrsta alvarlega olíukreppan reið yfir heiminn. Á þessum lista eru ýmsir bílar, algengir og óalgengir bæði hér sem annarsstaðar. Listinn óneitanlega talsvert forvitnilegur og sömuleiðis eyðslutölurnar.

http://www.fib.is/myndir/ZIL-117.jpg
ZIL 117 árgerð 1978.

ZIL 117

Einn þyrstasti fólksbíllinn á þessum lista er viðhafnarbíll Brésnefs, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins. Hann var af gerðinni ZIL 117 árgerð 1978. Þetta var ógurlegt flykki, þrjú tonn að þyngd með sjö lítra V8 bensínvél, 300 hestafla. Meðaleyðsla bílsins var 40 lítrar á hundraðið og þar yfir.

http://www.fib.is/myndir/Volvo164.jpg
Volvo 164 Automatik 1970.

Volvo 164 Automatik

Volvo 164 Automatik árgerð 1970. Hann var með sex strokka, þriggja lítra línuvél, 130 hestafla. Þessi bíll þótti afskaplega eyðslufrekur miðað við sambærilega bíla. Meðaleyðslan var 19 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/MercedesBenz230.jpg
Mercedes Benz 230, 1968.

Mercedes Benz 230

Mercedes Benz 230 1968. Gullfallegur vagn. Vélin var 2,3 lítra fjögurra strokka og 120 hestafla. Bíllinn fékkst líka með 2,5 og 2,8 l vélum með nokkru fleiri hestöfl en 2,3 lítra vélin. En þótt hestöflin væru færri í 2,3 lítra vélinni var eyðslan eiginlega ekkert minni því að meðaleyðsla hennar var 17 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/NSU%20RO80.jpg
NSU RO 80 1976.

 NSU RO 80

NSU RO 80 árg. 1976 var mikill tímamótabíll en hann var með 115 hestafla Wankelmótor og framhjóladrifinn. Í miðri olíukreppu þótti hins vegar bensíneyðslan aldeilis óskapleg en hún var 17-23 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Peugeot604SL.jpg
Peugeot 604 SL árgerð 1976.

Peugeot 604 SL

Peugeot 604 SL árgerð 1976 var mesti lúxusbíll Peugeot. Um þessar mundir var náin samvinna milli Peugeot og Volvo og 2,7 lítra 136 hestafla V6 vélin í þessum bíl var líka í Volvo 260. Og hver var svo eyðslan á þessum Peugeot 604? Jú 17 lítrar á hundraðið að meðaltali.

http://www.fib.is/myndir/Opel-diplomat.jpg
Opel Diplomat V8.

Opel Diplomat V8

Opel átti talsvert blómaskeið á þessum árum og flottasti Opelinn var lúxusbíllinn Opel Diplomat V8. Honum var ætlað að keppa við stóru Mercedes Benzana um hylli forstjóra og fyrirmanna í Evrópu. V8 vélin var 5,4 lítrar að rúmtaki, 230 hestafla og ættuð frá Chevrolet Corvette. Kannski skipti eyðslan litlu fyrir hinn ætlaða kaupendahóp en hún var 22 lítrar á hundraðið að meðaltali.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-eldorado.jpg
Cadillac Eldorado Convertible 1971.

Cadillac Fleetwood Eldorado Convertible

Cadillac Fleetwood Eldorado Convertible árgerð 1971 var  sannarlega enginn smábíll. Vélin var 8,2 lítrar að rúmtaki, V8 að sjálfsögðu og 365 hestafla sem kannski veitti ekki af til að koma þesum stóra og þunga bíl áfram. 8,2 lítra rúmtak er með því stærsta í fólksbíl nokkru sinni, ef ekki það mesta. Og eyðslan var ekkert smáræði – 29 lítrar á hundraðið að meðaltali í hófstilltum akstri, en ef menn voru eitthvað að spyrna og aka hratt, þá varð hún miklu meiri.

http://www.fib.is/myndir/Maserati_QuattroporteIII.jpg
Maserati Quattroporte III 1977.

Maserati Quattroporte III

Gott ef ekki eitt eintak af þessum bíl, Maserati Quattroporte III frá 1977 barst ekki til Íslands og er víst enn til í einhverjum bílskúr norður á Blönduósi að því best er vitað. Vélin var 4,9 lítrar að rúmtaki, 257 hestöfl og eyðslan ekkert smá, eða 29 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/BMW2800.jpg
BMW 2800 árgerð 1972.

BMW 2800

BMW 2800 árg. 1972 þóttu bæði aflmiklir og hraðskreiðir bílar og tekið var til þess að glæponar allskonar sem og terroristar sæktust eftir BMW bílum til þess að geta verið fljótir í förum þegar þeir sinntu „verkefnum“ sínum.  Vélin var sex strokka, 2,8 lítrar að rúmtaki og 170 hestöfl. Eyðslan var 18 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Jaguar-XJ12-1975.jpg  
Jaguar XJ12 1975.  

Jaguar XJ12

Eini evrópski lúxusbíllinn á sínum tíma, sem var með V12 strokka vél. Fékkst einnig með sex strokka línuvél og V8 vél. 12 strokka vélin var mjög þyrst á bensínið sem hún saug í sig gegn um fjóra blöndunga. Til að bíllinn kæmist bæjarleið voru í bílnum tveir 45 lítra bensíngeymar. Í langkeyrslu var eyðslan 30-35 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Audi200-5T.jpg
Audi 200 5T 1979.

Audi 200 5T

Audi 200 5T 1979 var sá flottasti í boði hjá Audi. Vélin var 2,1 lítra, fimm strokka með túrbínu. Aflið var 170 hestöfl sem þótti bara nokkuð gott þá. Eyðslan var hins vegar allnokkur eða 17-21 lítri á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Mercedes-Benz-450_SEL.jpg
Mercedes Benz 450 SEL 1975.

Mercedes Benz 450 SEL

Mercedes Benz 450 SEL 1975 var með 6,9 lítra V8 vél, 286 hestafla. Þetta var stór lúxusbíll og eiginlega fyrsti bíllinn í svonefndri S-línu og næst mesta lúxuslímúsínan frá Benz á eftir langa 600-Benzanum. Benz 450 SEL var mjög hraðskreiður bíll sín tíma, komst á 230 km hraða. Í hófstilltum akstri var hægt að koma eyðslunni niður í 23 lítra á hundraðið en ef ekið var á fullri ferð og öll hestöflin 230 nýtt, var eyðslan um 40 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Lamborghini-LM-002.jpg
Lamborghini Lm 002.

Lamborghini LM 002

Þetta ökutæki var afskaplega eyðslufrekt en að sama skapi sjaldgæft. Bíllinn á myndinni er frá 1989 og vélin er 5,2 l V8, 455 hestöfl og uppgefin eyðsla í blönduðum akstri er 53 lítrar á hundraðið. Við höfum þó spurnir af enn meiri eyðslu frá evrópskum bílasafnara sem keypti eintak af þessum sjaldgæfa bíl á S- Ítalíu og ók honum sjálfur þaðan og heim til sín. Vegalengdin var á annað þúsund kílómetra og eyðslan um það bil 100 lítrar af bensíni á hverja hundrað kílómetra.

http://www.fib.is/myndir/Jeep-Wagoneer-1978.jpg
Jeep Wagoneer. 1979.

Jeep Wagoneer

Jeep Wagoneer var talsvert algengur bíll á Íslandi um tíma. Algengasta vélin var V8, 5,9 lítrar að rúmtaki og 121 hestafl. Þetta var í upphafi hvarfakútanna sem gleyptu ansi mörg hestöfl. Hér á landi rifu menn hvarfakútana og mengunarvarnabúnaðinn úr bílunum. Við það fjölgaði hestöflunum og eyðslan lækkaði. En með mengunarbúnaðinum var uppgefin eyðsla 30 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri.

http://www.fib.is/myndir/LandRover88-1971.jpg
Land Rover 88, 1971.

Land Rover 88

Landróverinn var um langan tíma einn algengasti bíllinn á Íslandi og algengasti jeppinn var hann klárlega eftir að hafa leyst af gamla Willysinn og Rússajeppann upp úr 1960. Eftir að bílainnflutningur var gefinn frjáls árið 1962 komu fjöldamargir Land Róverar til landsins, fyrst með bensínvélum en dísilbílar urðu sífellt algengari þegar fram í sótti. Bensínvélin var 2,3 lítra að rúmtaki og 70 hestafla. Miðað við Rússajeppana varð vart annað sagt en bensíneyðslan væri hófleg enda Rússinn með fornfálega hliðarventlavél, þriggja gíra og drakk bensínið í sig ef ekið var hraðar en 60 km á klst. Land Róverinn hafði hins vegar 2,3 lítra 70 hestafla toppventlavél og fjóra gíra og eyðslan á 70 sem var leyfður hámarkshraði í þá daga, var eyðslan í kring um 19 lítrar á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Volkswagen-1303-1972.jpg
Volkswagen 1303 1972.

Volkswagen 1303

Volkswagen bjallan sem sló svo eftirminnilega í gegn eftir stríð var um flest afskaplega merkilegur bíll, þægilegur í akstri, vel byggður og lítt bilanagjarn. 1303 gerðin var einskonar flottheitaútgáfa, hafði hvelfda framrúðu, mun veglegra mælaborð og stærra farangursrými undir húddinu. Það var fyrst og fremst þannig til komið að bíllinn var með McPherson fjöðrun í stað gömlu vindufjöðrunarinnar á framhjólunum. Loftkælda vélin var sem fyrr aftur í skottinu. Hún var fjögurra strokka boxervél, 1,3 lítrar að rúmtaki og 44 hestöfl.

Bjallan var alltaf frekar eyðslufrek miðað við afl. Hámarkshraði þessa bíls var rúmlega 125 km á klst og meðaleyðslan um 15 lítrar á hundraðið.