Norðfjarðargöng auka umferð töluvert mikið

Umferð á milli Eskifjarðar og Neskaupsstaðar eykst um 36 prósent með tilkomu Norðfjarðarganga sé tekið mið af talningu á umferðinni fyrstu fjóra mánuði ársins. Reikna má með að umferðin á heilu ári aukist um ríflega 30 prósent. 

Samkvæmt umferðarteljurum Vegagerðarinnar hefur umferð um Norðfjarðargöng, frá því í janúar byrjun til loka apríl, verið 36% meiri en um Oddskarðið á sama tímabili á síðasta ári.

Norðfjarðargöng opnuðu í nóvember 2017 og til að bera saman árið 2018 (um Norðfjarðargöng) í heild við árið 2017 (um Oddskarðið) þykir raunsannara að nota þá umferð sem Vegagerðin áætlar að hefði farið um Oddskarðið í nóvember og desember á síðasta ári, ef göngin hefðu ekki komið til.

Með þetta í huga og ef einkenni umferðar um Norðfjarðargöng haldast svipuð einkennum umferðar um Oddskarðið gæti umferðin, fyrir árið 2018, um Norðfjarðargöng orðið rúmlega 30% meiri en um Oddskarðið árið 2017.  

Þessi aukning er í samræmi við það sem Vegagerðin áætlaði að gæti gerst og gangi þetta eftir mun umferðin vera við háspá Vegagerðarinnar frá árinu 2013.