Norðmenn eyða grimmt gömlu bílunum

Segja má að ef ekki væru þær aðstæður upp á Íslandi að bílaleigunum gengur vel og erlendir ferðamenn skipta við þær sem aldrei fyrr, væri meðalaldur íslenska bílaflotans verulega hærri. Það eru nefnilega bílaleigurnar sem kaupa langstærstan hluta þeirra nýju bíla sem seljast í landinu. En þrátt fyrir þetta er meðalaldur bíla á Íslandi einn sá hæsti í Evrópu um þessar mundir.

Aðra sögu er að segja frá Noregi. Norðmenn endurnýja nú bíla sína nokkuð hratt og losa sig við elstu bílana til eyðingar. Miðað við hversu margir bílar eru settir í eyðingu í Noregi bendir flest til að árið 2013 verði metár í eyðingu eldri bíla. Á fyrri helmingi ársins var 85.700 gömlum bílum eytt í Noregi eða 8.800 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Samkvæmt nýjum tölum frá norskum tolla- og skattayfirvöldum þá er jafnvel meiri gangur í eyðingunni nú. Því megi búast við að 2013 verði mesta bílaeyðingaár  í sögu Noregs.

Í júlí og ágúst sl. var 23 þúsund ökutækjum eytt. Á sama tímabili í fyrra voru ökutækin 15 þúsund. Alls hefur því verið eytt 108.700 bílum í Noregi frá áramótum til og með ágúst. Til samanburðar þá fóru alls rúmlega 100 þúsund bíla í eyðingu árlega að meðaltali á árunum 2009 til og með 2011.  

Norsk stjórnvöld hafa ýtt undir það að eldri og eyðslufrekari bílum sé eytt, með því að hækka skilagjald fyrir þá. Skilagjald fyrir gömlu bílanna sem er greitt eigendum þeirra við eyðingu er nú þrjú þúsund norskar krónur eða rétt um 60 þúsund ísl. kr.