Norðmenn fremstir í rafbílavæðingunni – Ísland í öðru sæti

Tæplega þrír af hverjum fjórum Norðmönnum sem keyptu sér nýjan bíl á síðasta ári völdu nýorkubíl. Þetta kemur fram í könnun sem Trading Platforms vann þar sem fram kemur sala á endurhlaðanlegum bílum um heim allan.

Norðmenn hafa lengi verið leiðandi á þessum markaði en í mörgum löndum er rafbílum að fjölga verulega. Hlutdeild nýorkubíla í Noregi á árinu 2020 var 74,8% og Ísland kom í öðru sætinu með 45%. Svíar voru í þriðja sætinu með 42,2%. Þess má geta að markaðshlutdeild rafbíla í Noregi var aðeins 1% í Noregi fyrir rétt rúmum áratug. Í Evrópu tvöfaldaðist sala á rafbílum annað árið í röð 2020. 20% bíla sem voru seldir í fyrra í Þýskalandi voru rafbílar og um 15% í Bretlandi og Frakklandi.

Heildarsala nýorkubíla um heim allan var 2,5% árið 2019 af allri bílasölu en var  komin upp í 4,2% árið 2020. Þær 15 þjóðir, sem eru með stærsta hlutann af endurhlaðanlegum bílum, eru í Evrópu en Kína kemur í 16. sæti. Í heimalandi Tesla, Bandaríkjunum, eru rafbílar og tengibílar aðeins 2,3 prósent af heildarsölunni.

Nýleg norsk könnun leiðir í ljós  að áhuginn fyrir rafbílum er mestur hjá yngra fólki og hjá þeim sem hafa meiri menntun og hærri tekjur.Í aldurshópnum 34-49 ára svara allt að 76% því til að rafbíll verði fyrir valinu sem næstu kaup. Í könnuninni kemur þó fram að dísil- og bensíneiegndur sveiflist fram og til baka í ákvörðunartöku sinni en íhugi á sama tíma að kaup á rafbíl væri skynsamur kostur sem vert er að skoða frekar.

Þeir sem búa úti á landsbyggðinni í Noregi eru hlynntari rafbílum en þeir sem búa í borgum. Flestir úti á landsbyggðinni í Noregi aka um á dísilbíl en nú hefur áhuginn á rafbílum aukist til muna. Í könnuninni kemur fram að að eftir sem tejkurnar eru hærri þeim mun meiri áhugi er fyrir kaupum á rafbíl en jarðefnaeldsneytisbílum.

Alls seldust 1.4 milljónir rafbíla í Evrópu 2020 eða sem samsvarar 8% allra seldra bifreiða. Búist er við að markaðshlutdeildin í Evrópu tvöfaldist á þessu ári og verði um 15%.