Norðurlandaumboð fyrir Rolls Royce

Rolls Royce hefur verið kallaður bíll konunganna og konungur bílanna og í hugum margra er það vitnisburður um það að lengra verði vart komist í lífinu en það að hafa ráð á að eignast nýjan Rolls Royce og eiga hann og reka. Hingað til hefur hvergi á Norðurlöndunum fyrirfundist sérstakt umboð fyrir þessa bíltegund. Ofurefnaðir Norðurlandabúar hafa því orðið að láta sér nægja lúxusbíla eins og Mercedes S, BMW 700 og Lexus en nú er að verða breyting: Í ágúst tekur nefnilega til starfa Norðurlandaumboð fyrir Rolls Royce. Það verður í Stokkhólmi og mun þjóna Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.  

Þessi nýja Norðurlandamiðstöð Rolls-Royce Motor Cars verður í miðborg Stokkhólms og reiknað er með því að fyrstu kaupendur nýrra Rollsbíla þar verði aðallega vel stæðir Svíar, enda verður þarna eina þjónustuverkstæðið og varahlutalagerinn fyrir bílana á öllu þessu nýja markaðssvæði.

Rolls Royce og Bentley voru á síðustu öld bresk vörumerki og tákn þess besta og traustasta sem fyrirfannst í bílageiranum í heiminum. Þegar hallaði undan fæti í breska bílaiðnaðinum í byrjun áttunda áratugarins fjaraði undan báðum þessu gæðamerkjum og svo fór að BMW yfirtók Rolls Royce en Volkswagen eignaðist Bentley.