Norsk framtíðarsýn frá 1957

http://www.fib.is/myndir/Norsk%20framtidarsyn.jpg

Árið 1957 auglýsti norskt umboð fyrir Volkswagenbíla í flestum blöðum landsins með teikningu af og lýsingu á hvernig Volkswagen bíllinn yrði orðinn hálfri öld síðar – árið 2007 sem nú er upp runnið. Því miður verður að segjast að þessi framtíðarspá hefur alls ekki gengið eftir og ætli maður verði ekki að bíða ein 50 ár í viðbót eftir að fram komi bílar þar sem ökumaður situr með krosslagða handleggi og lokuð augu og stjórnar bílnum með því einu að hugsa um hvert skal fara og hvernig, konan les dagblað við hlið hans og börnin leika lausum hala aftur í enda engin öryggisbelti í framtíðarbílnum yfirleitt?
http://www.fib.is/myndir/Volkswagen_Norge.jpg
En aðeins um „tæknina“ í norska Framtíðarfólksvagninum: Hann var gangsettur og síðan ekið með hugaraflinu. Það afl var virkjað með því að settur var einhverskonar heilabylgjunemi við annað eyrað. Neminn sendi svo hugsanirnar í einhverskonar tölvu sem svo stjórnaði bílnum í samræmi við hugsanir ökumannsins. Eins gott að sá sé ekki neinn grautarhaus heldur hugsi skipulega og rökrænt.

Framtíðarbíllinn átti að verða knúinn kjarnorkumótor, einhverskonar búnaður í honum sem nefnt er í auglýsingunni automataggregat sér til þess að bíllinn lendir aldrei í árekstri og fjarlægð frá næsta bíl verður aldrei styttri en 15 sentimetrar. Beygjur eru á öllum hjólum svo miklar að sérhvert hjólanna getur beygt eða snúist heilan hring eða 360 gráður og ef bílastæði á jörðu niðri skortir geta öflugar hljóðbylgjur séð um að leggja bílnum í allt að 2,5 m hæð í lausu lofti.