Nú vill VW kaupa Porsche

http://www.fib.is/myndir/KDF-bill-1.jpg
KDF Wagen - upphaflegi Fólksvagninn var hugverk Ferdinants Porsche.

Fræg er sú mikla atburðarás sem stóð sem hæst undir lok síðasta árs, þegar Porsche stóð í því að kaupa upp hlutabréf í Volkswagen í stórum stíl með það að markmiði að eignast fyrirtækið. Málið hefur nú tekið algera handbremsubeygju og stefnir í gagnstæða átt. Nú er það nefnilega Volkswagen sem virðist stefna að því að kaupa Porsche.

Financial Times greinir frá því og hefur eftir mörgum heimildum að stjórn og forstjórar Volkswagen íhugi nú í fúlustu alvöru að leggja fram kauptilboð í Porsche. Porsche hefur um langt skeið keypt hlutabréf í VW hvar sem í þau náðist. Mörgum sýndist það reyndar dálítið sérstakt og svipað eins og vænn golþorskur ætlaði sér að gleypa hval, því að Volkswagen er miklu stærra fyrirtæki en Porsche og með a.m.k. 15 sinnum meiri ársveltu.
http://www.fib.is/myndir/KDF-vagnar.jpg
Wendelin Wiedeking forstjóri Porsche hefur sagt fyrir ekki svo löngu að skuldir fyrirtækisins hafi aukist mjög í tengslum við þessi stórinnkaup á hlutabréfum í VW. Markmið Porsche um að eignast 75 prósent í VW hafi því verið lögð á hilluna í bili að minnsta kosti.

En sé það rétt að VW ætli sér að eignast Porsche þá má segja að fyrirtækið aftur á leið undir handarjaðar Porsche fjölskyldunnar því að Ferdinand Piëch stjórnarmaður í Volkswagen og fyrrverandi stjórnarformaður og forstjóri og auk þess eigandi um 13 prósenta hlutar í Porsche, er barnabarn stofnandans, sjálfs snillingsins Ferdinand Porsche. Það var einmitt Ferdinant Porsche sem stofnaði bæði fyrirtækin upphaflega og  hannaði gömlu bjölluna (KDF Wagen) fyrir Adolf Hitler.