Númerum stolið til að stela eldsneyti

http://www.fib.is/myndir/Sifdaelir6.jpg


Kona í Garðabæ, félagsmaður í FÍB, varð fyrir því nýlega að skráningarnúmerinu aftan af bíl hennar var stolið. Hún hafði lagt bílnum neðan við gamla Hagkaupshúsið á Garðatorgi og fór inn að versla. Þegar hún kom með vörurnar að bílnum og ætlaði að setja þær í skottið, sá hún að númersplatan var horfin. Númerið var fest í svartan smelluramma úr plasti, eins og algengast er um þessar mundir, En gefum þessum félagsmanni okkar sjálfri orðið:

„Ég fer svo niður í Frumherja til að panta nýtt númer. Þá segir skoðunarmaðurinn mér að þetta sé er verða vandamál í kreppunni, það sé verið að stela númerum af bílum setja á aðra bíla, fara svo á bensínstöðvar og taka bensín og keyra loks í burtu án þess að borga fyrir eldsneytiið sem tekið var. Svo á meðan ég er að ræða við Frumherjamanninn hringir maðurinn minn í mig og segir mér að það hafi verið hringt í heimasímann okkar frá Shell í Garðabæ. Þá ákveð ég að fara þangað yfir, þar sem að er nú í sama húsi, og ræða við þá. Þar hitti ég starfsmann sem kannaðist við að hafa séð mynd af númerinu mínu á borðinu fyrr um daginn.“

Í framhaldinu tilkynnti konan þjófnaðinn á númersplötunni til lögreglu. Lögreglumaðurinn sem tók við kærunni sagði sömu sögu og starfsmaður Frumherja, - að þjófnaðir á númeraplötum væru að verða vandamál. Það fólk sem væri að þessu vissi  fullkomlega hvernig öryggismyndavélar á bensínstöðvum virka og stæði því álútt  þannig að það sést ekki framan í það meðan dælt er á bílinn, en stolna númerið hins vegar skýrt og greinilega á myndum úr öryggismyndavélunum. Að „notkun“ lokinni henda síðan þjófarnir venjulega stolnu númersplötunni inn í næsta runna eða ruslatunnu

Félagsmaður okkar vill benda fólki á að til að draga úr líkum á óþægindum og tjóni af þessu tagi sé skynsamlegt að láta skrúfa númeraplöturnar fastar við bílinn. Þá er ekki jafn fljótlegt og auðvelt að fjarlægja þær með því bara að opna smellurammann og kippa númersplötunni úr honum. Loks má minna  á það að ein ný númersplata kostar 3.000 krónur.