Ný bleytudekk frá Michelin

Bílamiðillinn Detroit News greinir frá því að Michelin setji senn á markað nýjan hjólbarða sem hafi betra grip í bleytu en áður hafi tíðkast. Slitflötur þessa nýja dekks sé úr gúmmíblöndu og með sérstöku mynstri sem geri þetta mögulegt. Tæknin nefnist EverGrip og segir talsmaður Michelin í Ameríku að bíll á slitnum EverGrip dekkjum stöðvist skjótar í bleytunni en nokkur önnur glæný dekk af öðrum tegundum. Og það sem meira er að hið góða bleytugrip er sagt munu halda sér allan líftíma dekksins.

Aðal galdurinn við þetta mun vera sá að þegar EverGrip slitnar koma sífellt fram nýjar rásir í mynstrið sem leiða vatnið undan því þannig að veggripið á ekki að tapast við það að dekkið „fljóti upp“ í venjulegum akstri.

Þessi nýja mynsturtækni fyrirfinnst enn sem komið er í nýjustu gerð Michelin hjólbarða sem nefnist Premier A/S og verður fyrst um sinn, eingöngu fáanlegur í Bandaríkjunum frá og með aprílmánuði.

Gott grip hjólbarða á blautum vegi er afar mikilvægt öryggismál. Slysalíkur á blautum vegi eru tvöfalt meiri en á þurrum.