Ný gerð New York leigubíla

http://www.fib.is/myndir/Transittaxi_6.jpg
Taxi Transit Connect.

Á alþjóðlegu bílasýningunni í New York sem nú stendur yfir sýnir Ford frumgerð að nýjum leigubíl fyrir Bandaríkin sem er ólíkur þeim leigubílum sem Bandaríkjamenn hafa hingað til átt að venjast. Bíllinn er í grunninn Ford Transit Connect sem hannaður er og byggður í Evrópu. Rennihurðir eru á hliðum hans og bæði vegna þeirra og hversu hábyggður bíllinn er, er umgangur farþega um hann mjög auðveldur.

Hinn dæmigerði og sígildi leigubíll í bandarískri borg eins og t.d. New York er  hefðbundinn „fullvaxta“ bandarískur fólksbíll, gulur að lit. Í New York borg eru 12 þúsund slíkir leigubílar á ferðinni dag og nótt og algengasta tegundin er Ford Crown Victoria. Hinn hefðbundni bandaríski leigubíll er mikill um sig en nýtanlegt innanrými er ekkert sérstaklega mikið miðað við ytra umfang. Hönnuðir hins nýja leigubíls vilja með nýja bílnum bjóða upp á farartæki sem er þægilegra fyrir farþegana, fyrirferðarminna á götunum og eyðslugrennra en jafnframt ekki síðra sem vinnustaður ökumannsins. http://www.fib.is/myndir/Transittaxi_2.jpg

Í stað stórrar V6 eða V8 vélar verður fjögurra strokka 2ja lítra bensínvél í  nýja leigubílnum sem eyðir um 30 prósentum minna bensíni en hefðbundinn gulur Crown Victoria leigubíll og gefur frá sér um tíunda hluta skaðlegra útblástursefna á við Viktoríuna.

Nýi leigubíllinn verður með sætum fyrir þrjá farþega afturí. Þar verður þeim til skemmtunar 13 tommu sjónvarpsskjár. Á honum verður m.a. hægt að sjá ökuleiðina og hvar bíllinn er staddur hverju sinni. Í bílnum  verður einnig Bluetooth-kerfi sem sér farþegum fyrir þráðlausri Internet- og símatengingu. Í ferðalok kemur upp á skjáinn hvað ferðin kostar og farþegar geta sjálfir rennt greiðslukortinu í gegn um lesara eða greitt með reiðufé í gegn um kúlulúgu á skilrúminu milli farþegarýmisins og ökumanns.  http://www.fib.is/myndir/Transitconnecttaxi_offhi_04.jpg

Samkvæmt orðum talsmanna Ford á bílasýningunni í New York eiga nýju leigubílarnir að byrja að sjást í umferðinni í New York sumarið 2009.