Ný göng þurfa að vera lengri og breiðari

Niðurstaða nýrrar skýrslu sérfræðinga Vegagerðarinnar og Mannvits leiðir í ljós að gangaleið með tvístefnuumferð er langhagkvæmasti kostur tvöföldunar Hvalfjarðarganga. Fram kemur að öryggisreglur í jarðgöngum hafa verið hertar til muna frá því núverandi göng voru hönnuð fyrir rösklega tveimur áratugum síðan.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að ný göng þurfa að vera lengri og breiðari og með minni veghalla og þau yrðu allt að tveimur kílómetrum lengri en núverandi göng. Þá er gert ráð fyrir flóttaleiðum en þetta kemur fram í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag um ný Hvalfjarðargöng.

Göngin eru samtals 5770 metrar að lengd og þar af liggja 3750 metrar undir sjó. Göngin eru að mestu tvíbreið en þrjár akreinar í hallanum norðan megin. Dýpst fara göngin 165 metra undir yfirborð sjávar og eru grafin djúpt í berggrunninn undir sjávarbotninum.

Árið 2017 fóru hátt í sjö þúsund bílar um göngin á sólarhring en göngin voru upprunalega hönnuð fyrir aðeins fimm þúsund bíla á sólarhring

Enn sem komið er hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær ráðist verður í þessa afar brýnu framkvæmd.