Ný kynslóð Fiat Panda

Fiat Panda hefur um langt skeið verið ein mikilvægasta gerðin hjá Fiat. Sú kynslóð þessa smábíls sem þessi nýja leysir af hólmi – kynslóð númer tvö - hefur verið einn söluhæsti smábíllinn í Evrópu um margra ára skeið og þótt sumir kannski trúi því ekki – einn þeirra bíla í Evrópu sem minnst bila.

Frá 1980 þegar fyrsta kynslóð Fiat Panda kom fram á sjónarsviðið hefur Fiat selt 6,5 milljónir Pandabíla og nú er kominn tími á nýja kynslóð þessa vinsæla bíls. Sú verður frumsýnd í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður eftir tvær vikur. Blaðamenn í Evrópu hafa undanfarið verið að reynsluaka nýju gerðinni og láta ágætlega af. Nýja Pandan sé ágætlega rúmgóð hið innra, með ágæta aksturseiginleika og mjög sparneytnar bensín- og dísilvélar. Þá sé vel fyrir öryggismálunum séð. Það á hins vegar eftir að koma betur í ljós þegar EuroNCAP verður búið að árekstrarprófa bílinn en þær niðurstöður verða birtar síðar í haust.

Nýja Fiat Pandan er mjög svipuð að stærð og svipuð í úitliti og eldri gerðin. Hún er byggð á sama undirvagni og lífsstílsbíllinn Fiat 500 og vélar, gírkassar og annað gangverk verður að mestu hið sama og í 500 bílnum. Þannig verður nýja Twin-Air, tveggja strokka bensínvélin einn af vélarvalkostunum í Pöndunni eins og í Fiat 500.

Þótt ekki sé búið að gefa neitt upp um verð nýju Pöndunnar þá má reikna með því að það verði svipað og hingað til. Það þýðir að Pandan verður áfram talsvert ódýrari en Fiat 500, þótt notagildi hennar fyrir fjölskyldufólk og heimilishald sé annað og meira en notagildi Fiat 500.  Nýja Pandan er um 10 sm lengri en Fiat 500. Hún er sögð með nýjasta öryggisbúnaði, eins og fjarlægðarskynjun og sjálfvirkri hemlun ef árekstur er í aðsigi, fjórir loftpúðar, beltastrekkjarar og Isofix barnastólafestingar verður staðalbúnaður en athygli vekur að ESC stöðugleikabúnaður er sagður munu verða fáanlegur. Það þýðir einfaldlega að verði það látið standa, er Pandan útilokuð frá því að hreppa fimmtu stjörnuna og þá eftirsóknarverðustu hjá EuroNCAP. Til þess að fá hana þurfa bílar að hafa ESC sem staðalbúnað, ekki fáanlegan aukabúnað.

 Hin nýja kynslóð Fiat Panda kemur á markað á næstu vikum í Evrópu og verða þrjár vélagerðir í boði í fyrstunni. Fyrst er að nefna tveggja strokka Twin-Air vélina sem nýkomin er í Fiat 500. Án forþjöppu er hún 65 hö en með forþjöppu 85 hö. Einnig verður gamla 1,2 l fjögurra strokka 70 ha. bensínvélin áfram í boði og loks líka 1,3 l 75 ha dísilvél.

Síðar meir má búast við fleiri vélargerðum og útfærslum eins og fjórhjóladrifinnar útgáfu. Þá herma óstaðfestar fregnir að á síðari hluta næsta árs sé líka von á sérstakri og sérstyrktri og sérútbúinni Abarth-útgáfu með rúmlega 100 ha. vél og ýmsu öðru áhugaverðu fyrir þá sem vilja meira afl og snerpu.