Ný kynslóð Toyota Rav4

Ný kynslóð jepplingsins Toyota RAV4 og sú fjórða frá upphafi verður frumsýnd innan skamms á bílasýningu í Los Angeles. Rækilega hefur verið passað upp á það að engar myndir né aðrar upplýsingar leki út um þennan nýja bíl og hefur það tekist ótrúlega vel þar til nú. Skoða má nýjar myndir af þessum bíl á vefnum Carstyleblog.

Segja má að kominn sé tími fyrir nýja kynslóð þessa vinsæla jepplings því núverandi gerð hans er orðin óvenju langlíf, í það minnsta ef miðað er við kynslóðaskipti bíla hjá Toyota. Núverandi gerð RAV 4 kom fyrst fram sem árgerð 2006 þannig að segja má að tímaskeið hennar sé á enda runnið. Nýja gerðin verður frumsýnd á bílasýningunni í Los Angeles sem hefst eftir nokkra daga. Framleiðsla á henni hefst væntanlega á seinni hluta næsta árs og fyrstu bílarnir verða af árgerð 2014

Af myndunum af nýa RAV4 að dæma er framendi bílsins með sama svip og hinir nýuppfærðu Toyotabílar Auris Hybrid, Yaris Hybrid og Verso. Engar upplýsingar liggja fyrir, þegar þetta er skrifað, um innviði og tæknibúnað hinnar nýju kynslóðar RAV4. En það er svosem ekki langt í LA-bílasýninguna þar sem það verður gert opinbert: Hún verður opnuð fjölmiðlafólki 29. Nóv. nk.