Ný lög mikilvæg réttarvernd fyrir neytendur

Ný lög um úrskurðarnefnd er ein mikilvægasta réttarvernd neytenda í sinni tíð. Nýju lögin gera neytendum kleift að leita lausna á ágreiningsmálum við seljendur á vöru og þjónustu utan dómstóla. Þetta upplýsti Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Tryggvi sagði þetta eiga að vera fljótvirka og ódýra meðferð en hér eru neytendur að fá virkilega gott verkfæri í sínar hendur þar sem hægt er að ná réttinum fram á skjótvirkan og auðveldan hátt.

Nýju lögin, sem sett hafa verið í kjölfar tilskipunar frá Evrópusambandinu, eigi við um allar vörur og þjónustu sem ekki heyri undir aðrar sérnefndir um deilumál. Til að mynda séu því fasteignamál undanskilin.

Nefndin komi því til með að hafa víðtækt gildissvið. Tryggvi segir að þau myndu þó vilja sjá að fleiri sérnefndir yrðu settar á fót, svo sem nefnd sem tæki á ágreiningsmálum vegna viðskipta við fjarskiptafyrirtæki eða ýmsar áskriftir.

Réttur neytenda tryggður 

Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa taki við málunum og samkvæmt nýju löggjöfinni verður álit nefndarinnar bindandi og aðfararhæft, andmæli fyrirtæki ekki úrskurðinum innan 30 daga. Tryggvi segir að með þessu verði réttur neytandans tryggður, en hingað til hafi álit nefndarinnar verið óbindandi. 

Fram kom í þættinum að þau fyrirtæki sem tilkynni innan 30 daga að þau ætli sér ekki að fara eftir úrskurðinum verða sett á sérstaka skrá sem er birt og nafn þeirra verður aðgengilegt á listanum í ár, segir hann. Þetta hjálpi neytendum að sjá hvaða seljendur fari eftir því sem nefndin leggur til.