Ný og sparneytin vél í Toyota Auris

http://www.fib.is/myndir/Toyota_Auris_DualVVT.jpg
Toyota Auris Dual VVT.

Toyota hefur boðað röð nýrra og sparneytinna véla og sú fyrsta þeirra er að koma fram í fólksbílnum Auris. Nýja vélin í Auris er 1,3 l að rúmtaki, 101 hestafl, fjögurra strokka með tvöföldu VVT kerfi (breytilegur ventlaopnunartími) og beinni eldsneytisinnsprautun. Eyðsla bílsins með þessari vél miðað við þá eldri sem var 1,4 l að rúmtaki, er 19 prósent minni. Sjálfvirkur (Stop&Start) búnaður sem stöðvar vélina á ljósum og ræsir hana þegar fara á af stað aftur fylgir nýju vélinni og á hann að draga úr eyðslu í innanbæjarakstri um önnur 15 prósent til viðbótar.

Þessi umrædda vél er  algerlega ný frá grunni og óvenju fyirferðarlítil. Slaglengd stimplanna er 80,5 millimetrar en borvíddin er einungis 72,5 millimetrar. Það þýðir að vélin er ámóta mikil um sig og 1000 rúmsm þriggja strokka vél og jafnframt 13 kílóum léttari en eldri 1,4 l vélin.

Hámarksafl 1,3 Dual VVT-i er 101 ha. og hámarksvinnslan er 132 Nm. Sambærilegar tölur yfir eldri 1,4 l vélina eru 97 hö og 130 Nm. Hámarkshraði bílsins með nýju vélinni er uppgefinn 175 km / klst.

Koldíoxíðútblástur frá Auris með nýju vélinni er 17 prósent minni en með þeirri eldri,  eða 135 g/km. Í blönduðum akstri er uppgefin bensíneyðsla 5,8 l/100 km i Auris. En það er ekki bara nýja vélin ein sem á stæsta þáttinn í þessari auknu sparneytni heldur er við hana kominn nýr sex gíra gírkassi. Auk þess að vera með viðbótargírinn umfram eldri gírkassann þá eru hreyfanlegir hluti í nýja gírkassanum sagði vera 15 prósent færri, hvernig sem það nú má vera, en innri núningsmótstaða kassans er einnig umtalsvert minni en þess eldri.

Sjálfvirki Stop&Start búnaðurinn á að draga enn frekar úr eyðslu í innanbæjarakstri. Hann vinnur þannig að þegar bíllinn stendur kyrr í frígír stöðvast vélin sjálfvirkt en fer svo sjálfvirkt í gang þegar ökumaður stígur á kúplinguna. Toyota fullyrðir að í borgarakstri sparist allt að 15 prósent eldsneytis með þessum búnaði miðað við vél án hans.
Nýja vélin verður framleidd í verksmiðju Toyota í Deeside í Norður-Wales. Áætluð ársframleiðsla er 185 þúsund vélar.