Ný rannsókn sýnir að 83% framhaldsskólanema nota snjallsíma við akstur

Samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var fyrir tryggingafélagið Sjóvá þá nota 83% framhaldsskólanema snjallsíma við akstur.  Þetta eru sláandi tölur og sýnir að snjallsímanotkun undir stýri er aðför að öryggi vegfarenda hér á landi.

Fram kemur í fréttinni frá Sjóvá að um marktækar niðurstöður sé að ræða þar sem 71% framhaldsskólanema hafi tekið þátt í rannsókninni.  Yngstu ökumennirnir nota símann minnst við akstur en notkunin eykst með auknum aldri.  Af þeim sem eru 17 ára segjast 27% aldrei nota snjallsíma undir stýri en einungis 8% þeirra sem eru 20 ára og eldri. Um 71% svarenda segjast tala í símann undir stýri. Tæplega 60% senda SMS eða nota símann til að leita upplýsinga samhliða akstri og helmingur segist skoða og senda Snapchat skilaboð undir stýri.

Í Fréttablaðinu í gær var haft var eftir Einari Magnús Magnússyni sérfræðingi hjá Samgöngustofu að rekja megi banaslys í umferðinni til farmsímanotkunar ökumanna. Einar segir jafnframt að í Bretlandi er bannað með öllu að handleika farsíma á meðan á akstri stendur og eðlilegt að skoða hvort það ætti einnig að taka slíkar reglur upp hér.

Karlotta Halldórsdóttir verkefnisstjóri forvarna hjá Sjóvá segir það áhyggjuefni að símanotkunin aukist svona hratt með aldrinum hjá ungum ökumönnum.  Karlotta segir að Þetta sýni mikilvægi öflugra og stöðugra forvarna gegn notkun snjallsíma undir akstri og að ástæðulaust sé að ætla að snjallsímanotkun við akstur sé mikið skárri hjá eldri ökumönnum.

Í umferðaröryggisátaki FIA - 3500 mannslíf – sem FÍB tekur þátt í og miðlar til vegfarenda á Íslandi er varað sterkleg við snjallsímanotkun undir stýri.  Þar áminnir Pharrell Williams hljómlistarmaðurinn heimsþekkti ökumenn um að lesa hvorki né senda skilaboð undir akstri.  ,,Sekúndubrots skortur á athygli við akstur getur valdið banaslysi“.