Ný raunveruleg heilsársdekk

Umtalsverður munur er á eiginleikum sumar- og vetrarhjólbarða. Hann þýðir það að að sumarhjólbarðar duga illa í vetrarfæri og vetrarhjólbarðar illa í sumarfæri. Erfitt hefur reynst að sameina hina góðu eiginleika beggja í einum og sama hjólbarðanum þannig að viðunandi sé, en nú virðist sem það sé að einhverju leyti að takast. ADAC, hið þýska systurfélag FÍB er nú að undirbúa næstu vetrarhjólbarðaprófun. Í henni verður sérstök áhersla á nýjar gerðir svokallaðra heilsárshjólbarða. Þeir eru ekki síst ætlaðir jepplingum og öðrum fólksbílum með sítengdu fjórhjóladrifi.

Það er hjólbarðaframleiðandinn Michelin sem  lengst hefur unnið að gerð heilsárshjólbarða sem er jafnvígur á vetrar- sem sumarfæri en hinir stóru framleiðendurnir hafa fetað sömu slóð, sérstaklega eftir að Michelin setti sinn sumar-/ vetrarhjólbarða fyrir jepplinga, sem kallast Cross Climate, á markað. Hjólbarðinn, sem er viðurkenndur til notkunar bæði sumar sem vetur hefur fengið góðar móttökur í Evrópu þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við notkun hans árið um kring. Bíleigendur þurfa því ekki lengur að skipta um dekkjagang  vor og haust eins og hingað til.

Hið nýja Michelin Cross Climate og samskonar dekk frá Nokian sem heitir Weatherproof, hafa  þegar verið prófuð hjá  ADAC og fleiri óháðum aðilum og sýnt sig hafa fyllilega viðunandi eiginleika bæði sem vetrar- og sem sumarhjólbarði. Þau eru með E-merkingu sem sumardekk en líka með M+S (Mud and Snow) og meira að segja ískristallsmerkingu líka, en sú merking má einungis að vera til staðar á viðurkenndum vetrardekkjum. Bæði þessi dekk og fleiri svipuð af öðrum tegundum  eru þróuð til að geta mætt umhleypingum eins og vor- og hausthretum af öryggi en vera jafnframt með bestu sumardekkjaeiginleika jafnt í sumarhitunum sem í ausandi regni.

Munurinn á þessum nýju heilsársdekkjum og þeim dekkjum sem áður kölluðust því nafni felst í gúmmíblöndunni. Hún er af nýrri gerð sem harðnar ekki í kuldum og mýkist heldur ekki um of í hitum. Auk Michelin og Nokian hefur Goodyear komið fram með heilsársdekkið 4Seasons. Það er nú undir nýjum bílum frá m.a. VW, Audi, Fiat, Jeep, Opel, Ford og Renault.