Ný repjuolíuverksmiðja í Karlshamn í Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/Repja.jpg

Repjuakur og lest í Þýskalandi sem ekur á repjuolíu.

Vaxandi áhugi er fyrir því í Evrópu að rækta olíuríkar plöntur og vinna úr þeim olíu til eldsneytis fyrir dísilbíla. Sænsk fyrirtækjasamsteypa í landbúnaðargeiranum hyggst nú reisa verksmiðju í Karlshamn. Í henni verður framleidd olía úr repju sem vex á ökrum sænskra bænda. Olíunni verður síðan blandað við dísilolíu á bíla til að drýgja hana. Árleg afköst verksmiðjunnar verða 45 þúsund rúmmetrar af repjuolíu á ári og 15 manns munu starfa við framleiðsluna.

Mörgum kann að finnast þetta hljóma undarlega en staðreyndin er sú að nýjustu fólksbíladísilvélar geta gengið á hreinni matarolíu af nánast hvaða tagi sem er og allar dísilvélar geta ekið á hefðbundinni dísilolíu sem blönduð er 5% með repjuolíu, án nokkurra breytinga. Í dag er hlutfall repjuolíu í dísilolíunni í Svíþjóð nálægt 2% og er mikill áhugi hjá bæði neytendum og olíufélögum fyrir því að auka hlutfallið í 5%.

Þetta er ástæðan fyrir því að  sænska fyrirtækjasamsteypan sem heitir Lantmännen hefur ákveðið að reisa verksmiðjuna í Karlshamn og veitt til verkefnisins á fjórða hundrað milljónum ísl. kr. Talsmaður fyrirtækisins segist vonast til að löggjafinn breyti lögum um skattaálögur á bílaeldsneyti en þær eru eins og er mjög íþyngjandi fyrir repjuolíuna. –Stjórnvöld verða að breyta þessum lögum því að repjuolían er einfaldlega fljótvirkasta og ódýrasta aðferðin sem fyrirfinnst til að auka hlut innlendrar endurnýjanlegrar orku í bílaeldsneyti, - segir talsmaðurinn við Auto Motor & Sport.