Ný stýritækni fyrir ESC skrikvörn

Sænska fyrirtækið Autoliv er meðal stærstu framleiðenda öryggisbúnaðar fyrir bíla; búnaðar eins og öryggisbelta, loftpúða og skynjara og stýrikerfa fyrir  þennan öryggisbúnað. Hjá fyrirtækinu er nú að hefjast framleiðsla á nýrri ESC skrikvörn. Nýi búnaðurinn er miklu einfaldari og ódýrari en jafnframt að minnsta kosti jafn öruggur og sá búnaður sem hingað til hefur tíðkast í flestum bílum í Evrópu. Til þessa hefur ESC búnaður í flestum bílum í Evrópu verið frá annaðhvort Bosch eða Conti-Teves (Continental), en nú blandar Autoliv sér á fullu í slaginn.

Í nútímabílum er talsverður fjöldi skynjara. Sumir þeirra tengjast loftpúðunum. Þeir skynja högg á bílinn og senda boð um það í sérstaka tölvu sem vinnur úr þeim og sendir síðan boð til viðeigandi loftpúða um að springa út. ABS hemlar ESC kerfi vinna ekki ósvipað: Skynjarar senda boð til sérstakrar ABS tölvu um hvaða hjól hefur stöðvast eða skrikar og tölvan sendir boð í þrýstiloka í hemlakerfinu sem slaka á hemluninni þannig að ekkert hjólanna nær alveg að stöðvast. Með þessu móti næst fram hámarks veggrip sem er mjög mikilvægt í neyðartilfellum því ef hjólin stöðvast verður bíllinn stjórnlaus.

Það sérstaka við ESC búnaðinn hjá Autoliv er það að ein og sama tölvan er látin stjórna bæði loftpúðunum og ABS hemlunum og ESC kerfinu. Með þessu móti sparast bæði í þyngd bílsins, framleiðslukostnaðurinn á hvern bíl lækkar um sem svarar 3.500 – 4.000 ísl kr. sem skiptir miklu máli í fjöldaframleiðslunni og bíllinn verður aðeins einfaldari. Hið síðastnefnda skiptir talsverðu máli. Í mörgum bílum eins og t.d. BMW fyrirfinnast allt upp í 80 tölvur sem hver um sig stjórnar sínu kerfi. Það getur því orðið talsvert flókið ef gera þarf við bílinn, að tengja saman réttu kaplana á ný.