Ný tækni við vetnisframleiðslu

The image “http://www.fib.is/myndir/Vetnisbenzlitill.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Olíu- og orkufyrirtækið Norsk Hydro hefur bætt aðferðir við vetnisframleiðslu og á næsta ári verður fyrirtækið tilbúið í það að fjöldaframleiða nýjar vetnisframleiðslustöðvar sem eru miklu minni um sig en eldri búnaður. Þessi nýja tækni á að auðvelda mjög uppsetningu fullburða afgreiðslustöðvar fyrir vetnisbíla í stórum stíl. Gallinn er bara sá að vetnisbílar eru svo sárafáir í umferð og í sjónmáli að ekki er líklegt að vetnisstöðvar rísi í öðru hverju borgarhverfi á næstunni.
Vetni er fengið úr vatni með rafgreiningu. Megingallinn við framleiðslustöðvar hingað til er sá hversu plássfrekar þær eru. En nýja aðferðin hjá Hydro er sú að hleypa fimm sinnum meiri straum í vatnið en áður hefur verið gert. Við það vaxa framleiðsluafköstin að sama skapi. Þetta kemur fram í sænska tímaritinu Ny teknik.
Andres Cloumann markaðsstjóri Norsk Hydro Electrolysers segir við Ny Teknik að þótt tæknin sé komin til að framleiða öruggar framleiðslu- og afgreiðslustöðvar fyrir vetni þá verði varla mikil not fyrir þær fyrr en vetnisbílar verða í almannaeigu.
Hér í Reykjavík er ein framleiðslu- og afgreiðslustöð fyrir vetni. Stöðin hefur séð tveimur vetnisknúnum strætisvögnum, sem verið hafa í tilraunaakstri, fyrir vetni. Þá var einn vetnisfólksbíll hér í reynsluakstri fyrir skömmu. Enginn vetnisfólksbíll er hér á landi í akstri þessa stundina.
The image “http://www.fib.is/myndir/Vetnisbenzst.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þessi bíll var í akstri hér á landi fyrir skömmu. Bíllinn er búinn efnarafal sem breytir vetni í rafmagn sem knýr bílinn áfram. FÍB blaðið fékk tækifæri til að aka bílnum. Hann kom á óvart - vinnslan og öll viðbrögð bílsins voru alveg sambærileg við bensínknúna bíla sömu tegundar og gerðar.