Ný tegund bílatrygginga í USA

Nýstofnað bandarískt tryggingafélag býður nú nýja tegund bifreiðatrygginga. Tryggingatakinn greiðir iðgjöld eftir því hversu mikið hann ekur. Því meir sem hann ekur, þeim mun meir greiðir hann í tryggingar. Í bílnum er GPS staðsetningartæki sem mælir og skráir hversu mikið bílnum er ekið og sendir niðurstöðurnar í tölvur tryggingafélagsins sem svo skrifa út reikninginn. Tæknilega er fátt því til fyrirstöðu að innheimta tryggingagjöldin á svipaðan hátt hérlendis.

Tryggingafélagið sem heitir MetroMile býður upp á 20-50% ódýrari bílatryggingar gegn því að tryggingatakar samþykki að tryggingafélagið geti fylgst með ferðum þeirra á þennan hátt. Reyndar er alls ekki einhlítt að félagið geti fylgst nákæmlega með ferðum viðskiptavina sinna, hvert þeir fóru og hvenær, því tæknilega má búa þannig um hnúta að tæknibúnaðurinn í bílnum sendi einungis frá sér upplýsingar um eknar vegalengdir en ekkert um hvar var ekið.

Stofnandi tryggingafélagsins segir að milljónir fólks taki ákvörðun um breyttan lífsstíl og byrji að ferðast t.d. til og frá vinnu með almannasamgöngutækjum eða reiðhjóli í stað bílsins áður. Það þýði miklu minni akstur, en hins vegar engar breytingar á tryggingaiðgjöldum hjá flestum hefðbundnu tryggingafélögunum. -Það er ósanngjarnt og því viljum við breyta, segir stofnandinn, Steve Pretre.