Ný umferðarlög samþykkt

Alþingi samþykkti í vikunni frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, til nýrra umferðarlaga með öllum greiddum atkvæðum. Ráðherrann segir á Facebook-síðu sinni unnið hafi verið að nýjum umferðarlögum af framkvæmdarvaldsins síðastliðin tólf ár og að þau hafi verið lögð fram fjórum sinnum á Alþingi án þess að hljóta brautargengi.

„Þess vegna er það mjög gleðilegt að sjá það gerast að allur þingheimur sé sammála því að bæta umferðaröryggi með eins afgerandi hætti og atkvæðagreiðslan bar með sér,“ segir Sigurður Ingi á Facebook-síðu sinni.

Á meðal þeirra breytinga sem lögin fela í sér er að hjálmskylda á reiðhjóli verður til 16 ára í stað 15 ára áður. Þá var samþykkt að ef bifreið er ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metri.

Sveitarfélögum og Vegagerðinni verður síðan heimilt að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á tilteknum vegi eða svæði þegar mengun fer yfir heilsuverndarmörk eða þegar hætta er talin á að slíkt geti gerst.

Í nýjum umferðarlögum er þannig kveðið á um eftirfarandi:

 „Takmarkanir á umferð vegna mengunar frá ökutækjum geta t.d. falist í breytingum á hámarkshraða, takmörkun á umferð stærri ökutækja eða takmörkun almennrar umferðar með því að heimila tilteknum bifreiðum akstur á ákveðnum svæðum eftir oddatölu/jafnri endatölu eða sambærilegum endabókstaf skráningarmerkja.“

Leyfilegt magn vínanda í blóði ökumanns minnkar svo einnig með nýjum umferðarlögum en það fer úr 0,5 prósent í 0,2 prósent.

Frumvarp ráðherrans í heild sinni má nálgast hér.