Nýi Golfinn – Golf VI er fimm stjörnu bíll

http://www.fib.is/myndir/VW-Golf-VI.jpg

VW Golf VI.

Nú er lokið nýrri árekstrarprófunarlotu hjá EuroNCAP. Og þótt fréttabann sé á niðurstöðunum þar til í næsta mánuði, þá hefur verið gerð undantekning frá banninu með nýja Golfinn. Prófanirnar fóru fram hjá ADAC, systurfélagi FÍB í Þýskalandi og vegna þess hve Golf er mikilvægur bíll þar í landi – heimalandi sínu -  fékk ADAC leyfi til að birta niðurstöðurnar hvað varðar hinn nýja VW Golf.

Það hafði svosem ekki verið reiknað með öðru en því að nýi Golfinn stæði sig viðunandi vel í þessu prófi en bíllinn gerði gott betur en það og hlaut 36 stig af 37 mögulegum. Áður hafa fjórar tegundir bíla náð þeim árangri en aðeins einn hefur nokkru sinni hlotið fullt hús stiga: Það er Nissan Quashqai.

Nýi Golfinn eða sjötta kynslóð þessa vinsæla bíls var fumkynnt fyrir bílablaðamönnum á Íslandi fyrr í haust og hafa greinar þeirra af reynsluakstrinum verið að birtast undanfarið í öllum helstu bílablöðum og öðrum fjölmiðlum um allan heim að undanförnu. Það eru vissulega jákvæðari fregnir um land og þjóð sem þar birtust en þær fréttir sem nú eru mest áberandi um Ísland í erlendum fjölmiðlum.
                                                                                                                                                                                                      Í eldri gerðum af Golf hefur borið á því við áreksturspróf að líkur á hnjá- og lærameiðslum  ökumanns séu nokkrar við árekstur. Í nýja Golfinum hefur verið séð við því með því að setja loftpúða undir mælaborðið sem varnar slíkum meiðslum.

Þegar talað er almennt um að þessi eða hinn bíllinn sé þriggja, fjögurra eða fimm stjörnu bíll er átt við vörn hinna fullorðnu í bílnum. Nýi Golfinn gerir gott betur því að fyrir vernd barnanna í bílnum náði hann fjórum stjörnum af fimm og fyrir vernd fótgangandi sem fyrir bílnum verða hlaut hann fjórar stjörnur af fjórum mögulegum. Jafngóðum árangri í því efni hefur aðeins einn bíll áður náð. Það er Citroen C6.

Hinir bílarnir sem prófaðir voru en verða að hlíta fréttabanni þar til í síðari hluta næsta mánaðar eru Alfa Romeo Mito, Dacia Sandero, Ford Ranger, Ford Fiesta, Ford Ka, Honda Accord, Opel Insignia, Peugeot 308 CC, Renault Mégane og Volvo XC 60.