Nýir bílar hafa stórhækkað í verði

http://www.fib.is/myndir/Mini-d-clubman.jpg

Mini Clubman R55 1,6 dísil. Eyðsla samkv. Evrópumælingu er 4,1 l af dísilolíu í blönduðum akstri. CO2 útblástur er 109 g á kílómetra, fimm stjörnu bíll samkv. árekstursprófi EuroNCAP.

Morgunblaðið greinir í morgun frá því að nýir bílar hafa hækkað mjög í verði með gengishruni krónunnar. Í frétt Morgunblaðsins er Subaru Forester tekinn sem dæmi. Hann kostar í dag 1.640 þúsund krónum meira en hann kostaði fyrir 12 mánuðum. Á sama tímabili hefur Skoda Octavia hækkað um 1.250 þúsund krónur og Toyota Corolla um 730 þúsund krónur.

Eins og greint var frá í frétt hér á FÍB vefnum þann 8. þ.m. hefur sala nýrra bíla á Íslandi hrunið gersamlega á sl. 12 mánuðum og segja má að hún hafi botnfrosið eftir bankahrunið sl. haust. Morgunblaðið bendir réttilega á þær alvarlegu afleiðingar sem þetta hefur haft fyrir ríkissjóð. Í fréttinni segir m.a: …„Á sama tíma hafa tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á bifreiðar hrunið frá því að nema samanlagt ríflegum framkvæmdakostnaði við tónlistarhúsið á árunum 2005, 2006 og 2007 í að nema aðeins um tveimur milljörðum króna á þessu ári, gangi bjartsýnustu spár eftir.“

Nokkur útflutningur hefur verið á nýjum og nýlegum bílum frá Íslandi eftir að ný lög um endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts af þeim voru sett á síðari hluta sl. árs. Endurgreiðslan er veitt í hlutfalli við aldur bíls og er því hærri sem bíllinn er nýrri. Morgunblaðið greinir frá því í annarri frétt í dag og hefur eftir talsmanni eins bílaumboðanna að eftir að endurgreiðslan komst á hafi nokkuð af bæði umhverfismildum og öruggum bílum farið úr landi og hlutdeild þeirra í bílaflota landsmanna rýrnað, sem er óæskilegt.

Hvað er til ráða?

Það ástand sem nú er á nýbílamarkaðinum er á flestan hátt óæskilegt að mati FÍB. Eðlileg og æskileg endurnýjun bílaflotans á sér ekki stað, hann eldist hratt og hlutfall öruggra, sparneytinna og umhverfismildra bíla lækkar og ríkissjóður verður af tekjum.

Til að bregðast við þessu ástandi mætti vel hugsa sér að stjórnvöld gripu til svipaðra aðgerða og Þjóðverjar, Frakkar og margar fleiri þjóðir hafa gert upp á síðkastið, að setja á sérstakt tímabundið og hátt skilagjald á mjög gamla bíla, 9-10 ára gamla og eldri. Skilagjald þetta (gæti orðið ca. 200-400 þúsund kr.) yrði þá greitt einungis ef eigandi gamla bílsins kaupir í stað hans nýjan umhverfismildan bíl. (Bíl sem gefur frá sér 130 grömm af CO2 á hvern ekinn kílómetra eða minna). Skilagjaldið sérstaka dregst þá frá þeim opinberu gjöldum sem leggjast ofan á innkaupsverð nýja umhverfismilda bílsins sem keyptur er í stað gamla bílsins sem fer í endurvinnslu. Með þessu ynnist ýmimslegt og meðal annars eftirfarandi:

Meira öryggi – minni mengun

a.    Bílainnflutningurinn fengi smá vítamínsprautu sem gæti forðað honum frá allsherjarhruni sem nú vorfir vissulega yfir. Jafnframt yrði dregið úr þeirri hættu að mikill fjöldi manns í bílgreininni missi atvinnuna á næstu dögum og vikum.

b.    Markmið stjórnvalda um að draga sem mest úr CO2 útblæstri frá umferð nást fyrr.

c.    Öruggum bílum í umferðinni fjölgar og alvarlega slösuðum og látnum í umferðinni fækkar og kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa minnkar.
 
Framfarir í byggingu öruggra, sparneytinna og umhverfismildra bíla hafa verið stórstígar undanfarin ár, mánuði og jafnvel vikur. Stöðugt eru að koma fram betri og betri bílar í þessum efnum og enginn skyldi trúa því að jafnaðarmerki sé lengur milli þess að bíll sé umhverfismildur og að hann sé afllaus, fátæklega búinn og í alla staði ömurlegt farartæki. Því fer víðsfjarri.

Undir þessum hlekk er að finna alla þá bíla sem flokkast sem umhverfismildir í Evrópu (gefa frá sér 130 g eða minna af CO2 pr. kílómetra). Nálgast má þar flestar upplýsingar um bílana sem máli skipta í sambandi við eyðslu og útblástur. Í þessum flokki er að finna allt frá minnstu smábílum upp í efri milliflokk fólksbíla. Hver þessara bíla myndi henta þér?