Nýir bílar sjaldan ódýrari

http://www.fib.is/myndir/Bilafloti-2.jpg

Bílar hafa ekki verið ódýrari síðan 1980 í hlutfalli við tekjur almennings en nú, í það minnsta í Bandaríkjunum. Þetta er niðurstaða nýrrar athugunar Comercia Bank sem árlega gefur út einskonar bílakaupmáttarvísitölu sem nefnist Affordability Index.

Bandaríski þjóðlegi bílaiðnaðurinn glímir nú við mikla erfiðleika og sölutregðu. Óseldir bílar, ekki síst stórir og eyðslufrekir, hrannast upp og í slíku ástandi er hægt að gera góð kaup. Þessa dagana kostar nýr bíll í Bandaríkjunum að meðaltali 28.000 dollara eða tæplega 2,3 milljónir kr. Í þessu meðalverði er innifalin lántökugjöld. Meðal árslaun vinnandi fólks eru 61 þúsund dollarar eða tæpar fimm milljónir ísl. kr. Það tekur því meðaltekjufjölskylduna um það bil 23,1 viku að vinna fyrir einum nýjum meðal dýrum bíl. Það er um það bil einni viku skemmra en var í fyrra. Árið 1994 tók það meðalfjölskylduna tæpa 31 viku að vinna fyrir meðalbílnum eða tæpum sjö vikum lengri tíma en nú.

Að undanteknu örstuttu tímabili eftir flugránin og árásirnar á Tvíburaturnana á Manhattan og Pentagon 11. september 2001, hefur bílverð í hlutfalli við tekjur aldrei verið hagstæðara í Bandaríkjunum síðan 1980. Athyglisvert er að nú, eins og þá, er olíuverð mjög hátt. Af þeim sökum vill fólk kaupa minni og sparneytnari bíla en áður og í kjölfar sölutregðunnar lækkar verð stóru bílanna.