Nýjar dekkjamerkingar

Stóru árlegu gæðakannanirnar á hjólbörðum í Evrópu hafa afhjúpað verulegan gæðamun á dekkjum og fyrir kemur að dekk hreinlega falla á prófinu og ættu í raun og veru alls ekki að vera á markaði. Venjulega á þetta við um ódýra hjólbarða sem koma frá Austurlöndum fjær.

En hjólbarðaprófin hafa líka leitt í ljós mikinn mun á eiginleikum góðra hjólbarða frá viðurkenndum framleiðendum. Langflestir þeirra eru ágætir á auðum þurrum vegi en þegar kemur að bleytu og í tilfelli vetrarhjólbarðanna að ísingu og snjó, þá kemur munur í ljós. 

Nú ætlar Evrópusambandið að auðvelda fólki að velja sér hjólbarða með því að innleiða frá og með næsta ári nýjar og auðlæsilegar merkingar á hjólbarða. Þessar nýju merkingar eiga að sýna í sjónhendingu mótstöðu (eldsneytisþörf) dekkja, hversu hávaðasöm þau eru og síðast en ekki síst hemlunareiginleika þeirra á votum vegi. Nýju merkingarnar verða á áberandi límmiðum sem festir verða við nýja hjólbarða.

Með því að skoða þá eiga bíleigendur að geta á einfaldan hátt séð þessa mikilvægu þætti og borið saman mismunandi tegundir. Þessar nýju merkingareglur taka gildi frá og með 1. nóvember 2012. Hingað til hefur einungis verið skylt að setja á hjólbarða upplýsingar um burðarþol og hraðaþol. Þær upplýsingar eru greyptar á hliðar hjólbarðanna.

Nýju merkingarnar eru límdar á hjólbarðana eftir að búið er að prófa þá á staðlaðan máta eins og gert er í gæðakönnunum. Merkingarnar þjóna sama tilgangi og stjörnugjöf EuroNCAP eftir árekstrarprófanir á bílum.

Hjólbarðar eru eitt mikilvægasta öryggistæki hvers bíls. Snertiflötur hvers hjólbarða við veginn er einungis lófastór þannig að miklu skiptir að veggrip og hemlunareiginleikar séu sem allra bestir og að þær upplýsingar sem merkingarnar gefa séu réttar og staðfestar af óháðum aðilum. Merkingarnar eru því í þágu neytenda.

Töluvert hefur undanfarin ár borið á hjólbörðum á markaði í Evrópu sem eru mjög ódýrir og er oftast um að ræða hjólbarða sem tæpast uppfylla lágmarks öryggiskröfur. Sum þessara dekkja hafa einfaldlega reynst hræðilega og jafnvel átt það til að hvellspringa á fullri ferð. Vonast er ril að nýju merkingarnar muni með tímanum útrýma lélegustu hjólbörðunum af markaðinum.