Nýjar gerðir Chrysler

Svo til allar nýjar gerðir Chryslerbíla sem væntanlegar eru í framleiðslu á næstu fimm árum verða grundvallaðar á Fiatbílum. Þetta má lesa út úr nýrri fimm ára áætlun frá Chrysler.

 Það er því greinilegt að Fiat á að verða sá bjarghringur sem forða á hinum bandaríska Chrysler frá drukknun og koma bílaframleiðslunni á réttan kjöl á ný. Í framleiðsluáætlun Chryslers til næstu fimm ára kemur nefnilega fram að nánast allar nýjar gerðir Chryslerbíla verða a.m.k. byggðar á grunnplötum frá Fiat. Þannig er væntanlegur nýr Jeep smájeppi sem í rauninni er Fiat Panda. Sportbíllinn Viper verður lagður niður í bili og framleiðslunni hætt. Því er þó haldið opnu að  von geti verið á nýjum en gjörbreyttum Viper árið 2012.

Þær gerðir sem áfram verður haldið að framleiða eru stóri pallbíllinn RAM sem enn selst ágætlega í Bandaríkjunum. Sömuleiðis verður haldið áfram að framleiða hinn nýlega en gamaldags útlítandi Dodge Challenger sportbíl. Og ekki vilja menn algerlega hætta framleiðslu fullvaxta ekta amerískra fólksbíla því haldið verður áfram að framleiða og selja Chrysler 300 og sambærilegan bíl undir Dodge merkinu.

 Nýju gerðirnar

Nýju gerðirnar sem byggðar verða á tækni frá Fiat að meira eða minna leyti eru þessar:

http://www.fib.is/myndir/Fiat_panda.jpg
Fiat Panda 4x4. Verður Jeep í Bandaríkjunum.

Jeep smájepplingur, væntanlegur 2013 byggður á Fiat Panda. Meðalstór Jeep jepplingur, væntanlegur 2013. Byggður á Fiat undirvagni og leysir af hólmi Jeep Patriot og Compass. Þriðji jepplingurinn er einnig væntanlegur 2013. Hann verður hreinn Fiat en fær nafn Jeep Liberty, sem lagður verður niður í núverandi mynd. 

Það á greinilega að gerast mikið árið 2013 því að þá verður einnig byrjað að selja smábílinn Fiat 500 í Bandaríkjunum sem Chrysler. En á árinu á undan, 2012, kemur stallbakur, fólksbíll í Golf/Jetta stærðarflokknum sem leysir Chrysler PT Cruiser af hólmi. Það ár er einnig væntanlegur fólksbíll frá Fiat sem leysa á af hólmi fólksbílinn Chrysler Sebring. Þessi nýi bíll fær Chrysler Sebring nafnið í Bandaríkjunum.

Árið 2011 er væntanlegur nýr meðalstór pallbíll sem á að fá nafnið Chrysler RAM. Þessi meðalstóri pallbíll og stóri RAM pallbíllinn verða framleiddir og seldir samhliða og er minni bíllinn hugsaður sem valkostur við hlið þess stóra.

Jeep Wrangler Diesel heldur áfram óbreyttur að mestu en ný uppfærsla verður gerð 2010 á Jeep Grand Cherokee, á Chrysler 300C og ennfremur á Chrysler Town & Country. Ný kynslóð þess síðastnefnda er svo væntanleg 2014. Umtalsverðar breytingar verða á Dodge Journey á næsta ári og á
 Dodge Nitro 2011. Á því ári fær Dodge Challenger einnig andlitslyftingu og algerlega nýr Dodge Charger er væntanlegur á næsta ári. Loks er von á breyttum Dodge Grand Caravan á næsta ári og ný rri kynslóð bílsins 2014.

Þessir hverfa

Jeep Patriot og Jeep Compass hverfa úr framleiðslu í árslok 2012.
 Sölu á Jeep Commander og Chrysler PT Cruiser í Bandaríkjunum verður hætt á næsta ári og á Dodge Dakota um mitt ár 2011. Þá verður sölu á Dodge Caliber hætt um mitt ár 2012 og á Dodge Viper um mitt ár 2011, sem fyrr segir, en því haldið opnun að nýr Viper gæti birst á markaðinum 2012.