Nýjar og betri bílarafhlöður

Vísindamenn við Cambridgeháskóla í Englandi prófa nú frumgerð nýrrar líþíumrafhlöðu fyrir rafbíla sem eykur drægi bílanna milli endurhleðsla verulega og verður bæði léttari, ódýrari og endingarbetri en núverandi rafhlöður að því þeir segja.

Langflestar rafhlöður sem nú eru notaðar í hvers konar rafeindatæki eins og tölvur og farsíma og auðvitað rafbíla eru líþíumrafhlöður. Allt eru þetta ,,þurr”-rafhlöður en nýju rafhlöðurnar í Cambridge eru hinsvegar sýru-rafhlöður og það er víst eimurinn frá sýrunni í þeim sem gerir allan muninn.

Þetta sýrugas er sagt koma því til leiðar að orkurýmd rafhlaðanna tífaldast frá því sem nú er, sem gæti þýtt það að rafbíll sem nú kemst með góðu móti 120 kílómetra á hleðslunni kæmist 1.200 kílómetra og munar víst um minna. Aðrir kostir eru svo þeir að þær eru léttari, orkunýtnin er sögð 93 prósent og endingin slík að þær þola minnst 2000 endurhleðslur.

En því miður er þessi ofurrafhlaða enn á þróunar- og tilraunastigi. Eftir er að ráða bót á ýmsum ágöllum eins og löngum hleðslutíma. Hennar er því vart að vænta á markað fyrr en eftir um það bil áratug.