Nýjar Opelvélar

Hjá Opel vinna menn nú að því hörðum höndum að vinda ofan af áralöngum taprekstri. Það gerist m.a. með tæknisamvinnu við PSA (Peugeot/Citroen) sem senn mun sýna sig í nýjum gerðum og kynslóðum bíla, en líka nýjum gerðum véla. Nýju vélarnar eru reyndar skemmra undan: Þær fyrstu eru væntanlegar strax á næsta ári. Um þrjár megingerðir verður að ræða. Allar eru þær bensínvélar en fyrst kemur 1,6 lítra túrbínuvél með beinni strokkinnsprautun eldsneytisins. Sú verður í aflmestu útgáfunni 200 hestöfl og 13% sparneytnari en gömlu 1,6 l EcoTec vélarnar.

Þessi nýja öfluga en litla vél kemur fyrst fram á fyrrihluta næsta árs í Opel Astra GTC. Vinnuheiti þessara nýju vélagerða hjá Opel kallast SIDI (Spark Ignition Direct Injection) og verður start/stopp-kerfi innbyggt í þær allar. Öll 200 hestöflin nást strax við 4700 snúninga á mín. Vinnslan eða togið er sömuleiðis í góðu lagi og hámarksvinnslu, 300 Newtonmetrum, skilar vélin strax við 1700 snúninga á mínútu og upp úr.  SIDI vélarnar verða byggðar í vélaverksmiðju Opel í Ungverjalandi og hefst framleiðsla þeirra strax á þessu ári.

Astra GTC fær fyrst nýju vélina en síðar koma aðrar gerðr með SIDI vélar, en þær gerðir sem um ræðir nefnast Corsa, Astra, Mokka, Insignia, og fjölnota- og fjölskyldubílarnir Meriva og Zafira og líklega nýi borgarbíllinn Adam.