Nýji M-jeppinn frá Mercedes Benz væntanlegur

Þriðja kynslóð M-línunnar frá þýska lúxusbílaframleiðandanum Mercedes Benz kemur á markað í haust vestanhafs.  Líklega verður bíllinn ekki fáanlegur á Íslandi fyrr en á seinni hluta árs 2012.

Bíllinn er allur nýr í sniðum, með nýja 7-gíra sjálfskiptingu og val á milli þriggja véla til að byrja með. Bíllinn deilir undirvagni með 4. kynslóð Jeep Grand Cherokee. Nýji M-jeppinn kemur til með að vera fáanlegur í þremur útfærslum fyrst um sinn; ML250 með 2.1 lítra, fjögurra strokka dísilvél sem skilar 204 hestöflum,  ML350 Bluetec með 3.0 lítra, sex strokka dísilvél sem skilar 258 hestöflum og ML350 BlueEfficiency með 3.5 lítra, sex strokka bensínvél sem skilar 306 hestöflum. Allir eru þeir útbúnir 4Matic fjórhjóladrifi, en búast má við að afar vistvæn tvinnútfærsla ásamt AMG útfærslu sem mun skila vel yfir 500 hestöflum komi á markað nokkru seinna.

Gera má ráð fyrir að 2012 árgerðin af M-línunni frá þríarma stjörnunni verði verðlagður í samræmi við 2011 árgerðina, en skv. verðlista Mercedes Benz á Íslandi er grunnverð á M-línunni 11.900.000.

http://www.fib.is/myndir/Benz%20M%202012%20-%202.jpg
Innrétting í nýja M-Benzanum.
http://www.fib.is/myndir/Benz%20M%202012%20-%203.jpg
M-Benz séður úr lofti.