Nýjung í netþjónustu Umferðarstofu
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.
Umferðarstofa í samstarfi við Glitni hefur komið á fót sjálfsafgreiðsluvef á Netinu þar sem fólk getur haft eigendaskipti á bílum. Eigendaskiptin fara fram um netbanka Glitnis. Eigendur og meðeigendur bifreiðanna sem skipta um eigendur með þessum hætti þurfa að staðfesta eigendaskiptin með rafrænni undirskrift í netbanka til að þau gangi í gegn, en einn aðili að viðskiptunum verður að greiða þau gjöld sem eigendaskiptum eru samfara. Það gerir hann um netbanka Glitnis. Ætlunin er síðar að eigendaskipti geti farið fram með þessum sama hætti um netbanka annarra bankastofnana.
Þessi nýjung í Internetþjónustu var kynnt í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Við það tækifæri sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra m.a. að þessi nýja og framsækna þjónusta Umferðarstofu væri í samræmi við stefnu stjórnvalda um nýsköpun og akna skilvirkni í opinberri stjórnsýslu. Verkefnið í heild sinni væri merkilegur áfangi í átt að nýtingu upplýsingatækninnar í þágu aukinnar þjónustu við landsmenn.