Nýr Alfa Romeo 169 með Chrysler-tækni

http://www.fib.is/myndir/Alfa169.jpg
Einhvernveginn svona er talið að nýr Alfa Romeo 169 muni líta út þegar hann kemur á markað 2011.

Alfa Romeo 166 er nánast óþekktur hér á landi en þetta er talsvert öflugur bíll í svipuðum stærðarflokki og E-Benz en gagnstætt Benzanum er Alfan framhjóladrifin. Orðrómur hefur um skeið verið um nýjan bíl í stað Alfa 166. Hann átti samkvæmt flökkusögunni að verða afturhjóladrifinn og búinn tæknilegum innviðum frá Jaguar.

Nú eftir sameiningu Fiat og Chryslers verður ekkert af samstarfinu við Jaguar um nýja bílinn, sem hlýtur gerðarnúmerið 169. Nýi bíllinn verður að vísu til og hann verður afturhjóladrifinn en tæknilegu innviðirnir verða frá Chrysler, nánar tiltekið nýrri gerð Chrysler 300 sem var á teikniborðum Chryslers fyrir sameininguna við Fiat.

Eins og fram hefur komið hér á fréttavefnum þykir ljóst að samvinna Fiat og Chrysler muni þýða það að hagkvæmni í framleiðslu muni eflast mjög ekki síst vegna þess að sömu bílagerðir verði byggðar undir merkjum beggja. Þannig er lang líklegast að hinn nýi stóri Alfa 169 verði byggður ýmist sem Chrysler 300 og Alfa Romeo og að öllum líkindum muni framleiðslan fara fram í Chrysler verksmiðjunni í Bramton í Ontario í Kanada og hefjast snemma á árinu 2011.

En það er ýmislegt fleira á döfinni hjá hinni nýju samsteypu og meðal þess er að freista þess að koma Bandaríkjamönnum á bragðið með að fá sér minni og sparneytnari bíla. Þannig er byrjað að kynna Alfa MiTo sem minnst er á í fréttinni hér á undan, Fiat 500, Fiat Punto  o.fl slíka í Bandaríkjunum. http://www.fib.is/myndir/Fiat_Panda_Cross.jpg

Bandaríkjamenn hafa lengi verið mjög spenntir fyrir jeppum og öðrum fjórhjóladrifnum bílum. Það hyggst nýja samsteypan notfæra sér en um leið að koma þeim á bragðið með minni og sparneytnari jeppa og jepplinga en hingað tll. Þannig mun ætlunin að markaðssetja fjórhjóladrifnu gerðina af smábílnum Fiat Panda í Bandaríkjunum innan tíðar undir nafninu Jeep Panda. Jeep Panda á að koma á Ameríkumarkað um mitt ár 2011. Hann verður framleiddur í verksmiðju Chrysler í Toluca í Mexíkó. Áætluð sala fyrsta árið er 35 þúsund eintök.