Nýr barnabílstóll Folksam

http://www.fib.is/myndir/Bilbarnstol_framstor.jpg

Á bílasýningunni í Stokkhólmi sem nú stendur yfir sýnir sænska tryggingafélagið Folksam nýjan barnabílstól sem þróaður hefur verið á þess vegum. Stóllinn snýr gagnstætt akstursstefnu og nýjungin við stólinn er sú að hann verndar börn sem er allt frá því að vera nýfædd og upp í fjögurra ára gömul.

Folksam fékk fyrirtæki sem heitir Akta Graco til að þróa stólinn og markmiðið var að gera nýjan stól sem verndaði börnin í bílnum allan þann tíma sem þau eiga samkvæmt sænskum reglum að sitja gagnstætt akstursstefnu bílsins. Best er að börn snúi þannig í bílum á fyrstu æviskeiðunum til að draga úr hættu á að þau bíði varanlegan skaða á höfði, hálsi og hrygg ef árekstur verður. Geta skal þess að alls ekki má setja barnastól - hvort heldur sem hann snýr aftur eða fram – í framsæti því að loftpúðinn er stórhættulegur litlum börnum, springi hann út.

Í frétt frá Folksam um nýja stólinn segir upplýsingafulltrúinn Camilla Irmér að litlum börnum sé fimm til sjö sinnum hættara við að slasast eða deyja í árekstri í stól sem snýr í akstursstefnu heldur en ef þau sitja í stól sem snýr gagnstætt akstursstefnu bílsins. -Með þessum stól vildum við gera foreldrum smábarna það auðveldara að vernda þau í bílnum allt frá fæðingu fram til þess aldurs þegar óhætt er að láta þau sitja rétt í bílnum. Við vildum þróa stól sem í raun er tveir stólar í einum,- sagði upplýsingafulltrúinn.

Nýi Folksam barnastóllinn er með Isofix festingum. Isofix er staðlað festikerfi fyrir barnastóla sem nú orðið er í flestum nýjum bílum. Mjög auðvelt og fljótlegt er að festa Isofix stól í bíla og þarf ekki að nota öryggisbelti bílsins. Ef ekki eru Isofixfestingar í bílnum er þó einnig hægt að festa stólinn í bílinn með öryggisbeltinu. Þeir sem tryggja hjá Folksam í Svíþjóð geta keypt stólinn á verði sem er umtalsvert undir almennu verði og fengið hann með vaxtalausum afborgunum í allt að 48 mánuði
http://www.fib.is/myndir/Bilbarnstol_sidastor.jpg