Nýr bíll á grunni gamals Saab

Þann 11. maí sl. hóf kínverska ríkisbílaverksmiðjan BAIC sölu á nýjum bíl; Senova. Senova er í rauninni fyrsta kynslóð Saab 9-5, en BAIC (Bejing Auto) keypti öll framleiðslutæki og tækni, hönnun og einkaleyfi af þáverandi eiganda Saab; General Motors, árið 2009 þegar framleiðslunni á 9-5 var hætt í Svíþjóð.

http://www.fib.is/myndir/Senova-1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Senova-2.jpg

Senova er því að mestu leyti hinn gamli Saab 9-5 lifandi kominn á ný. Útlitið er lítillega breytt en innviðir að mestu þeir sömu, eins og t.d. vélarnar sem hægt er að velja í milli. Sú minnsta er 1,8 lítra með túrbínu, 180 hestafla. Sú í miðið er tveggja lítra með túrbínu, 204 hestafla. Stærsta vélin er 2,3 lítra og með túrbínu og er hún 250 hestafla. Gírkassinn er fimm gíra sjálfskipting en hægt er að stjórna skiptingum hennar með flipum á stýrishjólinu. Það mun án vafa gleðja gamla Saab aðdáendur að kveikjulykillinn og vélarræsihnappurinn er á miðjustokknum milli framstólana, á gamla Saab-staðnum.

Greinilegt er að BAIC hefur í hyggju að selja þennan bíl á útflutningsmörkuðum utan Kína því að uppgefið verð á honum með tveggja lítra vélinni í Evrópu er rúmar 17.500 evrur eða um það bil 2,7 milljónir ísl. kr. Þá hefur Hollywoodleikarinn Nicholas Cage verið ráðinn til að leika í auglýsingamynd um bílinn sem má sjá hér að neðan.