Nýr byltingarkenndur Michelin hjólbarði

Michelin kynnti  þann 2. mars í tengslum við bílasýninguna í Genf nýjan byltingarkenndan hjólbarða sem er jafnvígur í bæði vetrar- sem sumarfæri. CrossClimate kallast þetta dekk og er hið fyrsta nokkru sinni sem uppfyllir kröfur og væntingar sem gerðar eru til bæði sumar-og vetrardekkja. Það er bæði gúmmíblandan í slitfletinum en líka mynstrið sem samkvæmt lýsingum framleiðandans, Michelin, gerir gæfumuninn. Mynstrið er að hluta V-lagað og hárfínt en að öðru leyti eru raufar og holrúm sem sagt er að virki sem klær sem krafsa í vegyfirborðið þegar ísing er á því. Í þessu öllu saman er galdurinn sagður fólginn og dekkið semsé stenst vottunarkröfur sem gerðar eru til bæði vetrar- og sumardekkja. Motormagasinet í Danmörku greinir frá þessu.

Það hjóta að teljast þó nokkur tíðindi að fram sé komið dekk sem er nokkurnveginn jafnvígt á sumar- og vetrarakstursaðstæður. Það hefur nefnilega hingað til verið talið afar flókið og illmögulegt að sameina góða vetrar- og sumareiginleika í einu og sama dekkinu. Michelin, sem á sínum tíma fann upp radíalhjólbarðann og hefur alla tíð verið í fremstu röð dekkjaframleiðenda, fullyrðir að þetta hafi nú tekist með góðum árangri og það hljóta að teljast nokkuð merkileg tíðindi.

Tækni- og fræðimenn Michelin hafa unnið að þessu nýja CrossClimate dekki með mikilli leynd sl. tæp tvö ár og ekkert hefur spurst út um tilraunirnar fyrr en nú. Það verður spennandi að sjá næstu óháðu sumar- og vetrardekkjakannanirnar og hvernig þetta nýja dekki mun standa sig.

Af hálfu Michelin er fullyrt að nýja dekkið sé að öllu leyti jafnfætis öðrum hágæðahjólbörðum fyrirtækisins hvað varðar endingu, aksturseiginleika, öryggi og hagkvæmni. Bílablaðamönnum gafst kostur á að aka VW Golf bílum bæði á vegum og á lokuðum brautum og hafa margir þeirra sagt að dekkið hafi komið á óvart með hversu vel það stóð sig við misjafnar aðstæður.