Nýr „Fólksvagn í Frankfurt

http://www.fib.is/myndir/VW-up!.jpg
Volkswagen up!

Frankfurt bílasýningin var opnuð í gærmorgun fyrir blaðamenn en þeir hafa auk þess daginn í dag til að skoða sýninguna áður en almenningur fær aðgang að henni í fyrramálið - miðvikudag. Að vanda er mikið um hverskyns nýjungar, bæði nýja bíla og nýja tækni sem ekki síst miðar að meira öryggi bíla og meiri umhverfismildi. Þannig kynnti íhlutaframleiðandinn Bosch á fundi í morgun nýja gerð samrásarinnsprautunar eldsneytis fyrir dísilvélar sem stuðlar að enn minni mengun frá dísilvélum en bestu innsprautunarkerfi nútímans ráða við.

Flestir bílaframleiðendur stefna í átt til umhverfismildari bíla og minni og eyðslugrennri bíla til daglegra nota. Sem dæmi um það er hinn nýi Fiat 500 sem skipar nokkurskonar heiðurssess á sýningarsvæði Fiat. En Fiat er ekki sá eini – Volkswagen sem upphaflega var ætlað að framleiða ódýran, öruggan, einfaldan og traustan bíl fyrir borgara þriðja ríkis Adolfs Hitlers er greinilega að leita til róta sinna á ný því að í heiðurssæti á sýningarsvæði VW er einmitt nýr „Alþýðuvagn,“ frumgerð smábílsins VW up! VW up! er smábíll – borgarbíll, 3,45 metra langur með vélina afturí eins og gamla Bjallan og farangursrými er bæði afturí og frammi í húddinu.
VW up! er vissulega á hugmyndarstigi en með því að sýna hann í Frankfurt nú er ætlunin, að sögn tækniþróunarstjóra VW, Ulrich Hackenberg, að kanna viðbrögð sýningargesta. Af þeim á síðan að ráðast hvort bíllinn fari í fjöldaframleiðslu eða ekki.

Tegundarheitið er skrifað með lágstöfum og með upphrópunarmerki á eftir - up! Á blaðamannafundi í gærkvöldi sögðu talsmenn Volkswagen að það táknaði framúrstefnu, nýhugsun, lífsorku og bjarta framtíð, hvorki meira eða minna.

Tækniþróunarstjórinn, Ulrich Hackenberg sagði að með því að líta til upprunans – gömlu Bjöllunnar með vélinni aftur í, hefðu hönnnuðirnir átt auðveldar með að hanna borgarbíl morgundagsins sem væri lítill að utan en með meira innanrými en aðrir bílar sem aðeins eru 3,45 m að lengd og 1,63 á breidd. (Toyota Aygo-Citroen C1, Peugeot 107 og nýi Fiat 500). Innrétting bílsins hafi auk þess verið gerð mjög auðveld í meðförum og auðvelt sé að fella niður einstök sæti bílsins, taka þau úr og setja í farangursrýmið frammi í húddi, eða færa til inni í bílnum eftir þörfum. Innréttingin væri svo sveigjanleg að fyrrnefndir aðrir smábílar ættu eftir að virka eins og forngripir í samanburði við VW up!

Talsmenn Volkswagen vildu lítið gefa upp um vél eða vélar bílsins á fundinum í gærkvöldi. Þeir vildu einungis segja að hægt væri að þróa vélar og drifbúnað með margvíslegum hætti og það yrði gert í sátt við umhverfisverndarsjónarmið. Hugsa mætti sér tveggja, þriggja eða fjögurra strokka bensín- og dísilvélar og jafnvel rafmótor. En gírkassinn yrði sjálfskiptur með rafeindastýringu, svo mikið væri víst.

Walter de Silva er hönnunarstjóri VW. Hann sagði að hvert einasta strik hefði verið þrauthugsað í hönnun bílsins og afraksturinn sé í samræmi við framtíðar-hönnunarlínu VW bíla. Undirvagninn sé nýr. Hann sé hannaður þannig að auðvelt verður að breyta honum á ýmsa lund eftir því sem breytingar verða á bílnum milli árgerða og „kynslóða“ og eftir því sem undirgerðum fjölgar.
http://www.fib.is/myndir/VW-up-bak.jpg http://www.fib.is/myndir/VW_up-styri.jpg

http://www.fib.is/myndir/VW_up_profil.jpg http://www.fib.is/myndir/VW_up_stolar.jpg

http://www.fib.is/myndir/VW_up_samstoll.jpg