Nýr Ford Explorer í haust

Ford Explorer jeppinn, eða SUV, eins og slíkir bílar kallast í Ameríku, varð fljótlega eftir að hann fyrst kom fram, vinsælasti og mest seldi jeppi Bandaríkjanna. En svo kom bakslagið: Explorer jeppar tóku að velta og mikið umtal og málaferli varð svo hvorttveggja til að salan hrundi. En nú er fram kominn nýr og algerlega endurhannaður og endurbyggður Explorir með öllum þeim kostum sem Bandaríkjamenn vilja að prýði jeppa og ekki nóg með það. Eyðslan er sögð vera svipuð og hjá Toyota Camry. Skyldi þetta duga til að lyfta Explorernum í hásætið á ný?

 Tískusveiflan hefur legið frá jeppunum í Bandaríkjunum upp á síðkastið en með nýjum Explorer og sömuleiðis nýjum Jeep Cherokee kann að verða viðsnúningur aftur. Ford virðist vissulega hafa trú á því en klynningarherferð Fords á þessum nýja jeppa er ein sú stærsta sem dæmi eru um. Með nýja bílnum vonast Ford nefnilega til að ná svipaðri jeppasölu eins og fyrir áratug, þegar árssalan nam hátt í 500 þúsund bílum. Í fyrra var hún hins vegar einungis einn rúmur tíundi hluti þess.

 Best búna gerð hins nýja Explorers nefnist Limited og hefur alls konar þægindabúnað eins og fjarræsibúnað, rafstillingu á fótstigum, bakkmyndavél, 110 volta rafmagnsinnstungu fyrir utan annan hefðbundinn búnað eins og sjálfskiptingu og slíkt. Evrópuútgáfurnar verða með svipuðum búnaði nema að þar verður 230 volta rafmagnsinnstunga væntanlega í boði í stað 110 voltanna í Bandaríkjunum. 

 Nýi Explorerinn er byggður á undirvagni Ford Taurus fólksbílsins og er því ekki lengur byggður á undirvagni pallbíls eins og sá eldri var. Staðalvélin er ný 3,5 lítra V6 bensínvél. Hún er294 hö og er 20% sparneytnari en gamla staðalvélin. Einnig er í boði fjögurra strokka túrbínuvél, 240 ha. sem sögð er 30% sparneytnari en ámóta öflugar V6 vélar. Eyðsla hennar er sögð vera um 7,8 l á hundraðið sem er óvenju lítil eyðsla fyrir sjö sæta jeppa.