Nýr Ford Mustang Bullit

http://www.fib.is/myndir/Bullit0106.jpg

Einn frægasti bíll kvikmyndasögunnar er Ford Mustang bíllinn sem Steve McQueen ók í kvikmyndinni Bullit sem gerð var árið 1968. Ford hefur áður látið það boð út ganga að til standi að gera nýja seríu Mustang bíla undir nafninu Bullit og ný hefur ljósmyndari náð myndum af þessum nýja Mustang Bullit og má sjá þær á heimasíðu Mustang-áhugamanna sem nefnist StangNet.com.

Þeir sem séð hafa nýja Mustanginn segja að hann sé laus við allt prjál eins og krómliista og hverskonar merki. Ekkert loftinntak sé á vélarhlífinni, engar rauðar bremsur bak við felgurnar og enginn vængur (spoiler) á skottlokinu. Bíllinn sé mjög „hreinn“ á að líta, eins og Mustanginn hans Steve McQueen var.

Ekkert er vitað með vissu um innviði bílsins en menn geta sér þess til að hann verði með sérstyrktum undirvagni og fjöðrun, vélin verði 4,6 lítra, um 315 ha. Líklegast þykir að frumsýningin verði á Detroit bílasýningunni í janúar nk. en hugsanlegt sé að henni verði flýtt og bíllinn sýndur í fyrsta sinn í Los Angeles í nóvemberlok.

Mustangbíll Steve McQueen í myndinni Bullit var GT-390 Fastback árgerð 1968. Steve McQueen var alla tíð mikill bíla- og mótorhjólamaður og í hinum fræga bílaeltingaleik í kvikmyndinni ók McQueen sjálfur Mustanginum. Reyndar voru tveir eins bílar notaðir í myndinni og eyðilagðist annar þeirra gersamlega meðan á myndatökunum stóð og skyldi víst engan undra sem séð hefur myndina. Hinn bíllinn var seldur eftir að tökum lauk. Hann hefur lengi verið talinn horfinn af yfirborði jarðar, en fannst fyrir nokkru í hlöðu í Ohio River Valley í Kentucky og er nú verið að gera hann upp.