Nýr framkvæmdastjóri Varðar Íslandstryggingar

 The image “http://www.fib.is/myndir/Vordur%20Isl.png” cannot be displayed, because it contains errors.

Sigurður Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Varðar Íslandstryggingar hf.   FÍB er með samning við Vörð Íslandstryggingu um að bjóða félögum FÍB Tryggingar sem er heiti á tryggingarvalkosti þar sem iðgjöld ábyrgðartrygginga, kaskótrygginga og heimilistengdra trygginga eru í flestum tilvikum hagkvæmari en hjá öðrum tryggingafélögum.
Sigurður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi í rekstrarhagfræði frá Rotterdam School of Management árið 1990. Sigurður var áður rekstrarstjóri VÍS eignarhaldsfélags og þar áður starfsmannastjóri VÍS, starfsmannastjóri Nýherja og deildarstjóri hjá Flugleiðum.
Vörður Íslandstrygging varð til árið 2005 við sameiningu Varðar vátryggingafélags hf. og Íslandstryggingar hf. Starfsmenn félagsins eru 30 talsins á Akureyri og í Reykjavík, auk umboðsmanna víða um land.
Fram kemur á heimasíðu Varðar Íslandstryggingar að jafnhliða ráðningu Sigurðar hverfi Einar Baldvinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri til annarra starfa en verði þó stjórn og nýjum framkvæmdastjóra til ráðgjafar fyrst um sinn.
FÍB þakkar Einari Baldvinssyni gott samstarf og sendir Sigurði Ólafssyni góðar óskir með von um
frjósamt samstarf um FÍB Tryggingu, FÍB félögum og samkeppni á tryggingamarkaði til heilla.

The image “http://www.fib.is/myndir/Fibtr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.