Nýr gírkassi hjá Volvo

http://www.fib.is/myndir/Volvo-logo.jpg


Frá og með árgerð 2009 verða Volvo C30, S40 og V50 fáanlegir með sjálfskiptum svonefndum Powershift gírkassa. Það er þýska gírkassafyrirtækið Getrag sem framleiðir nýju kassana fyrir Volvo. Í raun er um samskonar gírkassa að ræða og verið hafa fáanlegir í Volkswagen bílum um nokkurt árabíl. Hjá Volkswagen heita þessir gírkassar DSG.

Eins og hjá VW verða Powershift gírkassarnir með sex gíra. Galdurinn við þessa gírkassa er sá að í grunninn eru þeir hefðbundnir gírkassar ólíkt venjulegum sjálfskiptingum. Í þeim er sjálfvirkur skiptibúnaður sem vinnur saman með tveimur fjöldiska kúplingum í olíubaði, (svipað og þekkjast í mótorhjólum).  http://www.fib.is/myndir/Volvo_Powershift.jpg

Kostirnir við þessa gírkassa umfram hefðbundnar sjálfskiptingar eru þeir að orkutap er miklu minna í þeim heldur en sjálfskiptingunum, þeir þola betur mikið og langvarandi álag t.d. þegar bíllinn er notaður til að draga þunga vagna. Þá gefa kúplingarnar tvær  afar mjúka skiptingu milli gíra, svo mjúka að skiptingin finnst í raun ekki þar sem togálagið fellur ekki dautt niður milli gíra, svipað og gerist þegar stigið er á kúplinguna og skipt upp eða niður í handskiptum bíl. Allt þetta þýðir að eldsneytiseyðsla er merkjanlega minni í bíl með svona gírkassa en í samskonar bíl með hefðbundinni sjálfskiptingu.

Þeir Powershift gírkassar sem nú eru að koma í Volvobílum eru byggðir til að þola  togkraft upp á 450 Newtonmetra. Það er yfrið nóg fyrir þá bíla sem um ræðir og sem dæmi má nefna að  sá tveggja lítra dísilmótor sem verður í Volvo C30, S40 og V50 er 136 hö, og vinnslan eða togaflið er 320 Newtonmetrar.